Skagfirðingar mæta Fljótsdalshéraði í undanúrslitum Útsvars
Lið Skagafjarðar er komið í undanúrslit spurningakeppni sveitarfélaganna, Útsvari. Liðið hafði betur gegn nágrönnum okkar frá Akureyri í spennandi viðureign í 8-liða úrslitum.
Fyrri viðureign undanúrslitanna fer fram næstkomandi föstudagskvöld en þá mæta Skagfirðingar harðsnúnu liði Fljótsdalshéraðs. Lið Fljótsdalshéraðs hefur notið mikillar velgengni í keppninni fram til þessa og skemmst að minnast þess að liðið hefur í tvígang komist í úrslitaviðureignir Útsvars svo það er ljóst að það eru engir aukvisar sem Skagfirðingar munu mæta á föstudaginn.
Lið Skagafjarðar er skipað þeim Guðnýju Zöega, Guðrúnu Rögnvaldardóttur og Vilhjálmi Egilssyni. Sem fyrr segir er viðureignin næsta föstudag í Ríkissjónvarpinu og hefst útsendingin kl. 20:05.
Áfram Skagafjörður!