Fara í efni

Aðventustemming

09.12.2016
Hólar í Hjaltadal

Nú er að renna upp þriðja helgin í aðventu jóla þó ekki sé hægt að segja að jólalegt sé um að litast þegar snjóinn vantar. Fastir liðir halda samt sínu striki eins og aðventukvöld og að fella sitt eigið jólatré í skagfirskum skógi.

Í kvöld er aðventukvöld í Skagaseli sem hefst kl 20, fjölskylduskemmtun á Mælifelli með Sveppa og Villa, opin vinnustofa myndlistarfélagsins Sólons í Gúttó og  jólahlaðborð unglingadeildar Björgunarsveitarinnar Grettis.

Á morgun eru jólatónleikar Tónlistarskóla Skagafjarðar í Grunnskólanum austan Vatna á Hólum kl 12:30 og kór eldri borgara syngur í Skagfirðingabúð kl 16. Flest fyrirtæki eru með opið lengur og bjóða mörg hver viðskiptavinum sínum ýmislegt góðgæti. Opið er m.a. í vinnustofunni í Gúttó og Skrautmeni, Potthúsinu á Bergstöðum og í Maddömukoti.

Á sunnudaginn er aðventudagurinn á Hólum í Hjaltadal og bíða margir spenntir eftir því að fara í Hólaskóg og sækja sér jólatré. Það verður baðstofustemming í Nýjabæ í boði Kvenfélags Hólahrepps,  sögustundir, nemendur grunnskólans taka lagið og boðið upp á kakó og smákökur. Hóladómkirkja, Sögusetur íslenska hestsins og Bjórsetur Íslands verða opin. 

Skógræktarfélag Skagfirðinga verður með sölu á jólatrjám í Varmahlíð á sunnudaginn við Lindarbrekku.