Fara í efni

Skagfirska bókin, Eldað undir bláhimni, sigraði í flokknum Best Local Cuisine Book

16.12.2013

Skagfirska bókin, Eldað undir bláhimni, er tileinkuð skagfirskri matarmenningu og var gefin út af Nýprenti fyrir síðustu jól. Bókin hefur vakið athygli bæði innanlands og utan en hún inniheldur rúmlega fjörtíu uppskriftir og fjölda ljósmynda af skagfirskri matargerð, náttúru og mannlífi. Gourmand veitir árlega þeim bókum sem þykja skara framúr í heimi matreiðslunnar verðlaun í mismunandi flokkum með tilliti til innihalds, prentunar, hönnunar o.fl. Ein bók frá hverju landi fer í úrslit og keppir á bókamessunni Paris Cookbook Fair þar sem útgefendur fá tækifæri til að hittast og koma sinni bók á framfæri við áhrifamenn í matreiðsluheiminum. Á fréttavefnum Feykir.is segir að um tuttugu og sex þúsund matreiðslubækur séu gefnar út árlega í heiminum og markmið keppninnar sé að hjálpa lesendum og bóksölum að finna bestu bækurnar úr öllum þeim fjölda.

Margir lögðu hönd á plóg við útgáfu bókarinnar m.a. starfsmenn Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem höfðu umsjón með framleiðslu og útgáfu bókarinnar og sveitarfélagið styrkti útgáfuna ásamt Matarkistunni Skagafirði, Kaupfélagi Skagfirðinga, Menningarráði Norðurlands vestra, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Nýprenti.