Skemmdaverk í Skógarhlíðinni á Sauðárkróki
Það var ófögur sjón sem blasti við starfsmönnum þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins í byrjun desember þegar farið var um Skógarhlíðina fyrir ofan vatnshúsið á Sauðárkróki. Svo virðist sem óprúttnir aðilar hafi gert það að leik sínum að höggva niður tré með öxi eða álíka verkfærum til þess eins að fella þau. Um 10 tré lágu í valnum og meirihluti þeirra falleg og stæðileg tré. Eiga tréin það sameiginlegt að vera staðsett nálægt veginum hjá vatnshúsinu svo líklegt er að aðilarnir hafi ferðast um á bíl og fellt það sem næst var hendi.
Skógarhlíðin og Litli-skógur komu ílla undan síðasta vetri og þurfti að grisja mikið af trjám sem höfðu brotnað vegna snjóþunga. Þetta eru því einkar ljót sár á svæðum þar sem nú þegar var búið að grisja.
Skemmdaverkin hafa verið kærð til lögreglu og eru þeir sem geta veitt upplýsingar um skemmdarverkin hvattir til að hafa samband við Lögregluna á Norðurlandi vestra eða starfsmenn þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins (skagafjordur@skagafjordur.is).
Hér má sjá nokkrar myndir af skemmdarverkunum:
Stór Stafafura um 5-6 metrar.
Tvö lerkitré um 4 metrar voru felld.
Fjögur falleg grenitré voru felld á þessum reit sem þegar var búið að grisja.
Fura sem hefur verið söguð og stubbar skildir eftir.