Fara í efni

Skipan fulltrúa í þarfagreiningarnefnd um byggingu menningarhúss á Sauðárkróki

01.02.2017
Safnahús Skagfirðinga

Árið 2005 undirrituðu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, Gísli Gunnarsson, þáverandi forseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Agnar H. Gunnarsson, oddviti Akrahrepps, undir samkomulag um uppbyggingu menningarhúss í Skagafirði.

Grundvöllur þessa samkomulags var ákvörðun ríkisstjórnar Íslands frá árinu 1999 um að veita stofnstyrki til uppbyggingar menningarhúsa utan höfuðborgarsvæðisins með það að markmiði að bæta þar aðstöðu til menningar- og listastarfsemi.

Samkomulagið var byggt á niðurstöðum samstarfshóps skipuðum fulltrúum menntamálaráðuneytis og sveitarfélaganna í Skagafirði. Annars vegar var gerð tillaga um endurbætur á félagsheimilinu Miðgarði, þar sem áhersla yrði lögð á tónlistarflutning, stærri hátíðir og ráðstefnuhald. Var endurbætt hús, Menningarhúsið Miðgarður, formlega vígt við upphaf Sæluviku Skagfirðinga í apríl 2009. Hins vegar var gerð tillaga um að byggt yrði við núverandi Safnahús Skagfirðinga á Sauðárkróki og að þar verði menningarmiðstöð með áherslu á fræðastörf og sýningar, sem hýsi m.a. sýningarsal, bókasafn, listasafn og skjalasafn.

Með bréfi frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, dags. 27. desember 2016, var tilkynnt um skipan fulltrúa ráðuneytisins í þarfagreiningarnefnd um byggingu menningarhúss á Sauðárkróki, og óskað eftir tilnefningu frá Sveitarfélaginu Skagafirði á móti. Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar skipaði fulltrúa sveitarfélagsins á fundi 26. janúar sl.

Fulltrúar Sveitarfélagsins Skagafjarðar eru Sólborg Una Pálsdóttir, Sigríður Magnúsdóttir, Gunnsteinn Björnsson, Björg Baldursdóttir og Hanna Þrúður Þórðardóttir. Fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis eru Karitas H. Gunnarsdóttir og Þráinn Sigurðsson.