Fara í efni

Skrifstofur Byggðasafnsins færast yfir í prestssetrið í Glaumbæ

10.01.2022
Prestssetrið í Glaumbæ. Mynd: Byggðasafn Skagfirðinga.
Í dag var tilkynnt um breytingar í aðsigi hjá Byggðasafni Skagfirðinga en skrifstofur og aðstaða starfsfólks Byggðasafnsins mun á næstu vikum færast yfir í prestssetrið í Glaumbæ. Í prestssetrinu í Glaumbæ er góð vinnuaðstaða og rými til að búa vel að öllu starfsfólki, bæði fastráðnu og sumarstarfsfólki.
 
Flutningur skrifstofu fornleifadeildar fram í Glaumbæ og aukin starfsemi á svæðinu hefur kallað á bætta aðstöðu og meira rými en Gilsstofan hefur upp á að bjóða,  en aðstaða starfsfólks hefur verið í Gilsstofu að undanförnu. Gilsstofan hefur sinnt hlutverki sínu með mikilli prýði síðustu ár og nú verður loks hægt að gera henni og sögu hennar góð skil og leyfa henni að njóta sín með því að setja þar upp sýningu og opna hana fyrir gestum safnsins.
Verða þannig öll húsin á safnsvæðinu aðgengileg fyrir gesti og mynda saman skemmtilega heildarmynd og upplifun.