Smáforritið Lifandi landslag með útgáfuhóf í Miðgarði
Lifandi landslag er smáforrit sem leiðir notanda sinn um Skagafjörð með hjálp þjóðsagna, efnis úr Grettissögu og Sturlungu og kynnir um leið helstu þjónustu og afþreyingu sem í boði er á svæðinu. Ferðalangarnir fræðast um sagnir af tröllum, huldufólki og fornum hetjum og fá í leiðinni upplýsingar um helstu veitingastaði, söfn, náttúrulaugar og gönguleiðir. Forritið er svokallað ferðaapp, það er ókeypis að sækja það og tilgangur þess er að kynna skagfirskan menningararf og þá afþreyingu sem í boði er í héraðinu.
Forritið er það fyrsta sinnar tegundar á landinu, það staðsetur notandann og sýnir honum kort af Skagafirði. Á kortinu er fjöldi skilta með mismunandi táknum eftir því hvaða upplýsingum notandinn leitar eftir. Einungis þarf að íta á viðkomandi skilti og fá fram upplýsingarnar. Forritið er fyrir Android og Appel stýrikerfi og er ókeypis að nálgast það.
Það er Sóley Björk Guðmundsdóttir sem er að gefa út forritið en það er unnið úr MA verkefni hennar í Hagnýtri menningarmiðlun í HÍ. Forritið er unnið í samstarfi við Sveitarfélagið Skagafjörð, Akrahrepp og félagið á Sturlungaslóð.
Útgáfuhófið verður næstkomandi föstudagskvöld kl 20 á efri hæð Miðgarðs. Um leið og smáforritið verður aðgengilegt verður sett í loftið heimasíða með sama efni. Þetta er skemmtileg viðbót við það efni og þá afþreyingu sem í boði er og sérstaklega fyrir þá tæknivæddu.
Allir eru velkomnir í Miðgarð að kynna sér þetta nýja nýja forrit, Lifandi landslag.