Starfsmaður byggðasafnsins útskrifaður doktor í fornleifafræði
Guðný Zoëga fornleifa- og mannabeinafræðingur hjá Byggðasafni Skagfirðinga varði doktorsriterð sína í fornleifafræði við Oslóarháskóla 28. febrúar síðastliðinn. Doktorsritgerðin ber nafnið: Keldudalur, a typical household cemetery? The bioarchaeology of a medieval household (Keldudalur, venjulegur heimiliskirkjugarður? Líffornleifafræðileg úttekt miðaldaheimilis).
Ritgerð Guðnýjar fjallar um íslensk miðaldaheimili, og byggir á fornleifa- og mannabeinarannsóknum. Kjarni hennar er uppgröftur 11. aldar kirkjugarðs sem kom óvænt í ljós við framkvæmdir í Keldudal í Hegranesi árið 2002 en einnig er notast við samanburðarefni úr öðrum skagfirskum kirkjugörðum. Inntak ritgerðarinnar er að í Keldudal hafi verið „venjulegt“ meðal heimili sem gæti því gefið upplýsingar um hvernig íslensk miðaldaheimili voru samsett, og almennt hvernig lífsskilyrði íslenskrar alþýðu hafi verið á þeim tíma sem kristnin var að ryðja sér til rúms. Helstu niðurstöður benda til að að jafnaði hafi verið um 8-10 manns í heimili og í garðinum lágu því um 4-6 kynslóðir heimilismanna. Ungbarnadauði var mjög hár en einnig voru merki um að fólk hafið náð nokkuð háum aldri sem bendir til þess að þó lífsskilyrði hafi á köflum verið óhagstæð þá hafi lífslíkur að jafnaði getað verið ágætar. Rannsóknin sýnir líka að það voru ekki bara best stöddu bændurnir sem gátu komið sér upp kirkju og kirkjugarði, en ljóst er að í upphafi 12. aldar urðu samfélagsbreytingar sem leiddu til þess að heimilis kirkjugarðarnir lögðust af.
Við óskum Guðnýju til hamingju með áfangann!