Fara í efni

Starfsmannafélag Skagafjarðar sameinast Kili

18.02.2014

Á aðalfundi Starfsmannafélags Skagafjarðar sem haldinn var í gær 17. febrúar var samþykkt að sameinast Kili stéttarfélagi starfsmanna í almannaþjónustu. Viðræður hafa staðið yfir um nokkurn tíma milli stjórna félaganna og undirrituðu þær samkomulag 23. janúar síðastliðinn þar sem sameiningin var ákveðin. Með sameiningunni verða félagsmenn Kjalar um 1000 manns og félagið eitt af fimm stærstu félögunum innan BSRB.

Félagssvæði Kjalar nær yfir Norðurland og Vesturland og var félagið stofnað árið 2004 við sameiningu nokkurra félaga á svæðinu. Formaður er Arna Jakobína Björnsdóttir sem hefur aðsetur á skrifstofu félagsins á Akureyri ásamt Margréti Árnadóttur fulltrúa.

Starfsmannafélag Skagafjarðar var stofnað árið 1971 og félagsmenn þess voru ríkisstarfsmenn í Skagafirði og starfsmenn hjá Sveitarfélaginu Skagafirði um 160 manns. Fráfarandi formaður félagsins er Árni Egilsson sem tekur sæti í stjórn Kjalar fram að næsta aðalfundi.