Samtakamáttur og samheldni á mikilvægum tímum
Eins og vitað er eru aðgerðir ríkisstjórnar vegna Covid-19 í stöðugri endurskoðun og taka mið af stöðu faraldursins á hverjum tíma. Í öllum ákvörðunum og umræðu af hálfu yfirvalda hefur verið lögð mikil áhersla á að reyna að halda úti órofinni starfsemi á sem flestum sviðum. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur markað sér þá stefnu að fylgja leiðbeiningum yfirvalda hvað þetta varðar eins og hægt er og leitast við að þjónusta íbúa í stofnunum sveitarfélagsins hvar sem þeir eru, í skólum, í velferðarþjónustu og annars staðar.
Nokkuð hefur borið á umræðu um hvort skynsamlegt sé að loka skólum um tiltekinn tíma og freista þess þannig að hefta útbreiðslu sjúkdómsins. Í því sambandi má nefnda að Skóla- og barnamálaráðherra heldur daglega samráðsfundi þar sem allir aðilar skólasamfélagsins eiga sína fulltrúa ásamt sveitarfélögunum, sóttvarnaryfirvöldum og fulltrúum almannavarna. Markmið samráðsfundanna er annars vegar að upplýsa um stöðu faraldursins í skólum landsins og hins vegar að ræða ýmis álitamál og vangaveltur í tengslum við skólahald. Ljóst er að staða faraldursins er mjög misjöfn í landinu – sums staðar hefur þurft að loka deildum og jafnvel skólum alveg vegna útbreiðslu sjúkdómsins. Annars staðar hefur ekki þurft að grípa til svo harkalegra aðgerða þar sem tekist hefur að halda sjúkdómnum frá skólum að miklu eða öllu leyti. Staðan er því afar misjöfn og ljóst að ekki er þörf á að sníða sama stakkinn fyrir alla, heldur er mikilvægt að meta stöðuna á hverjum tíma og taka ákvarðanir út frá henni. Þótt veiran hafi vissulega stungið sér niður meðal nemenda og kennara í leik- og grunnskólum okkar þá er það mat sveitarfélagsins að ekki sé þörf á að grípa til harðari aðgerða en gildandi takmarkanir gera ráð fyrir, enda er tekið undir þá skoðun stjórnvalda að mikilvægt sé að halda sem mest órofinni starfsemi á sem flestum sviðum. Sjónarmið um mikilvægi skólahalds komu jafnframt fram í liðinni viku hjá fulltrúa Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um að leggja ætti áherslu á að halda skólum opnum vegna mikilvægis þeirra út frá menntunarlegum, geðheilbrigðis- og félagslegum forsendum.
Þegar þessi orð eru skrifuð, í morgunsárið þann 17. janúar, er staðan þannig að ekki hefur verið tilkynnt um nein ný smit um helgina í okkar stofnunum. Enginn bekkur er lengur í sóttkví, mæting nemenda í skólana er um og yfir 90% og afar fá forföll eru hjá starfsmönnum. Í málefnum fatlaðs fólks og í þjónustu við aldraða er sömu sögu að segja – sem betur fer hafa ekki orðið smit hjá þeim viðkvæma hópi sem fatlaðir og langveikir eru og ekki hefur þurft að rjúfa eða draga úr starfsemi stofnana á þessu sviði.
Eðlilega mæðir mikið á öllum þeim starfsmönnum sem eru í miklu samneyti við skjólstæðinga í skólum og velferðarþjónustu og eðlilegt er að ýmsar vangaveltur séu uppi um hvernig eigi að mæta þeim vágesti sem faraldurinn er. Ekki verður þó vart við annað en að mikill vilji sé af hálfu starfsmanna okkar stofnana og samfélagsins alls til að halda starfseminni órofinni eins og hægt er, en meta stöðuna daglega og taka ákvarðanir út frá henni. Hafi starfsmenn allir sem og íbúar heila þökk fyrir samtakamátt og samheldni sem birtist á svo margan hátt í okkar góða samfélagi.
Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri.