Stofnframlögum úthlutað til byggingar 8 leiguíbúða á Sauðárkróki
Íbúðalánasjóður tilkynnti um niðurstöðu síðari úthlutunar stofnframlaga árið 2016 á hádegisverðarfundi þann 6. apríl sl. Er þar um að ræða framlög til kaupa eða bygginga á hagkvæmum byggingum, svokölluðum leiguheimilum, sem er nýtt og byltingarkennt kerfi að danskri fyrirmynd sem gerir meðaltekjufólki kleift að komast í langtímaleigu.
Alls hefur verið úthlutað framlögum til byggingar 509 íbúða vegna ársins 2016 í samræmi við lög sem Alþingi setti síðasta haust. Samtals nema framlögin 2,8 milljörðum króna en heildarkostnaður vegna verkefnanna er margföld sú upphæð.
Húsnæðissjálfeignarstofnunin Skagfirskar leiguíbúðir hses, sem stofnuð er af Sveitarfélaginu Skagafirði, sótti um og fékk úthlutað stofnframlögum að upphæð tæpum 50 milljónum króna til byggingar tveggja fjölbýlishúsa með alls 8 íbúðum, sem fyrirhugað er að reisa á Sauðárkróki. Er þar um að ræða tvær 3ja herbergja íbúðir og sex 4ra herbergja íbúðir.