Fara í efni

Styrkir í þágu farsældar barna

19.03.2025

Mennta- og barnamálaráðherra auglýsir eftir umsóknum frá íslenskum félagasamtökum um styrki til verkefna sem stuðla að farsæld barna. Um er að ræða einsskiptis styrki sem ætlað er að styðja við innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og menntastefnu til ársins 2030.

Styrkirnir eru meðal annars veittir til verkefna sem snúa að menntun, frístundastarfi, forvörnum, samfélagslegri virkni, stuðningi og ráðgjöf til barna og fjölskyldna.  

Miðað er við að styrkfjárhæðir séu allt að 3.000.000 kr., en í undantekningartilvikum er unnt að veita hærri styrki. Félagasamtök sem hljóta styrki á fjárlögum eða eru með samninga við ráðuneyti eða stofnanir þeirra, vegna skilgreindra verkefna, geta ekki sótt um styrk vegna sömu verkefna. Ekki verður tekið við umsóknum um rekstrarstyrki eða umsóknum vegna kaupa á búnaði og tækjum.

Nánar er hægt að kynna sér viðmið við val á umsóknum í reglum um styrkveitingar mennta- og barnamálaráðherra.  

Sótt er um styrk á Mínum síðum á vef Stjórnarráðsins undir mennta- og barnamálaráðuneytinu. Einungis er tekið við rafrænum umsóknum. Sjá leiðbeiningar um notkun á Mínum síðum.

Umsókn skulu fylgja upplýsingar um verkefnið, hvernig umsækjandi hyggst vinna verkefnið og hvort það hefur notið styrkja frá öðrum aðilum. Vakin er athygli á því að umsækjandi kann að þurfa að leggja fram frekari upplýsingar, m.a. um faglega hæfni og rekstrarhæfi, samkvæmt leiðbeiningum ráðuneytisins.

Unnt er að hafa samband við mennta- og barnamálaráðuneytið á mrn@mrn.is ef óskað er frekari upplýsinga.

Umsóknarfrestur er til og með 6. apríl 2025.  Áætlað er að úthlutað verði eigi síðar en 9. maí 2025.