Sæluvika Skagfirðinga 2015 hefst 26. apríl
Sæluvika Skagfirðinga 2015 verður sett í Húsi frítímans, sunnudaginn 26. apríl nk. kl. 14. Í kjölfarið tekur við vikulöng dagskrá þar sem tugir menningartengdra viðburða verða haldnir vítt og breytt um héraðið. Dagskrá Sæluviku Skagfirðinga 2015 má skoða hér.
Upphaf Sæluviku má rekja til hátíðar á Reynistað þann 2. júlí árið 1874, en sama ár var Íslendingum færð stjórnarskrá og var fagnað í Skagafirði sem og annarsstaðar á landinu. Þennan dag var haldinn mikil matarveisla í Espihólsstofu á Reynistað, en fram af henni var reist stórt tjald, þar sem fjöldi manns komst fyrir. Rætt um ýmis þjóðþrifamál og er líða tók á daginn hófust dans- og söngskemmtanir sem stóðu fram á nótt. Má segja að þarna hafi verið lagður grunnur að skemmtanahaldi sem þróaðist næstu áratugina. Þann 8. október sama ár boðaði Eggert Briem, sýslumaður, til fyrsta sýslufundarins á Reynistað. Upp frá því voru skemmtanir haldnar í tengslum við sýslufundina. Fundurinn var haldinn á Sauðárkróki árið 1886 og hefðin um skemmtiviku og héraðshátíð mótaðist. Í daglegu tali var vikan nefnd Sýslufundarvika, en orðið Sæluvika hefur verið orðið tungutamt í kringum 1920, en það sást fyrst á prenti árið 1917.
Lengst af var sýslufundur haldinn í febrúar, en síðan 1995 hefur Sæluvikan verið fastsett í lok apríl ár hvert.
Árið 1888 var Leikfélag Sauðákróks stofnað og setti það og önnur félög upp leiksýningar í kringum sýslufund. Seinna tóku fleiri félög þátt í því að sýna leiksýningar og revíur, t.d. Umf. Tindastóll, Stúkan, Verkamannafélagið og seinna Kvenfélag Sauðárkróks. Fleira var á dagskrá en leiksýningar. Strax í upphafi var getið um spjall manna við hátíðarborðið á Reynistað árið 1874 og þar voru líka haldnar ræður. Framfarafélagið, sem stofnað var á fyrri hluta 20. aldar hélt lengi uppi þeirri hefð á Sæluviku.
Árið 1923 hófust svo kvikmyndasýningar í Sæluviku og hafa þær verið á dagskrá meira og minna síðan 1926 og lengst af voru margar dansskemmtanir haldnar á Sæluviku. Þá má nefna að fjölbreyttar söngskemmtanir hafa fylgt vikunni um langt skeið, sem og myndlistasýningar og margvíslegar aðrar sýningar, skemmtanir og fræðsla.