Fara í efni

Sveitarfélagið Skagafjörður fær úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir framkvæmdir við Ketubjörg

06.05.2022
Hönnun við Ketubjörg

Þau gleðilegu tíðindi bárust í dag að Sveitarfélagið Skagafjörður fær úthlutað styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2022 að upphæð kr. 23.693.200 fyrir verkefnið aðgengi og öryggi ferðamanna við Ketubjörg. 

Til stendur að hefja framkvæmdir við að bæta aðgengi og aðstöðu fyrir ferðamenn við Ketubjörg en svæðið nýtur vaxandi vinsælda ferðamanna og mikilvægt að bregðast við því. Búið er hanna tvö bílastæði við tvo útsýnisstaði og skipuleggja og hanna merkingar á svæðinu og hanna göngustíga og öryggisráðstafanir við björgin. Verkefnið fellur vel að áherslum Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða þegar kemur að stýringu ferðamanna, áfangastaðaáætlunum, náttúruvernd og öryggi. Notast verður við efni sem fellur vel að umhverfinu við gerð bílastæðanna og gönguleiðanna.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála, menningar- og viðskiptaráðherra tilkynnti úthlutun úr sjóðnum í dag en í ár er úthlutað rúmlega 548 milljónum króna úr sjóðnum en hæsti einstaki styrkurinn er 55 milljónir kr. Framkvæmdasjóðurinn fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Mikill árangur hefur náðst í starfi sjóðsins í að bæta innviði um land allt og auka getu svæðanna til að taka á móti ferðamönnum.

Þetta eru svo sannarlega gleðileg tíðindi fyrir ferðaþjónustuna í Skagafirði.

 

Hönnunartillaga við tvo útsýnisstaði við Ketubjörg: