Sveitarfélagið Skagafjörður auglýsir eftir húsnæði hjá einkaaðilum og félagasamtökum fyrir flóttamenn í sveitarfélaginu
Sveitarfélagið Skagafjörður lýsir yfir vilja sínum til að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu og hefur falið sveitarstjóra að vera í sambandi við flóttamannanefnd til að koma þeim vilja á framfæri, afla frekari upplýsinga um samninga um móttöku flóttamanna og stilla saman strengi með stjórnvöldum.
Sveitarfélagið Skagafjörður hefur samþykkt að kanna mögulegt framboð húsnæðis fyrir flóttamenn í sveitarfélaginu og auglýsir eftir slíku húsnæði frá einkaaðilum og félagasamtökum. Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar ítrekar fordæmingu á innrás Rússa í Úkraínu og brot þeirra á sjálfstæði og sjálfræði úkraínsku þjóðarinnar.
Þeim sem geta boðið fram húsnæði til leigu fyrir fólk á flótta frá Úkraínu er bent á að fylla út eyðublað á vefsíðu Fjölmenningarseturs. Þar er einnig að finna upplýsingar og svör við algengum spurningum sem upp hafa komið.