Sveitarstjórn samþykkir að hækka ekki gjaldskrár á árinu 2014
Á sveitarstjórnarfundi í dag var eftirfarandi tillaga samþykkt samhljóða.
Í ljósi viðsnúnings og jákvæðrar þróunar í rekstri sveitarfélagsins hefur meirihluti framsóknar og vinstri grænna í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar ákveðið að leggja til að ekki verði farið í gjaldskrárhækkanir fyrir árið 2014 er snúa aðallega að börnum, barnafólki og eldri borgurum. Lagt er til að eftirfarandi gjaldskrár verði ekki hækkaðar frá fyrra ári þrátt fyrir verðlagshækkanir:
Leikskólagjöld | Skólamáltíðir í leik- og grunnskólum | |
Skóladagvist | Tónlistarnám | |
Hljóðfæraleiga | Aðgangseyrir í sundlaugar (áfram verður frítt í sund fyrir börn og eldri borgara með lögheimli i sveitarfélaginu) | |
Dagvist aldraðra | Heimaþjónusta | |
Tómstundastarf barna á vegum sveitarfélagsins |
Á kjörtímabilinu hefur verið ráðist í viðamiklar hagræðingaaðgerðir hjá sveitarfélaginu með samstilltu átaki sveitarstjórnar, starfsfólks sveitarfélagsins og íbúum þess. Sá árangur sem náðst hefur er grunnurinn að því að hægt er að fara í fyrrgreindar aðgerðir. Meirihluti framsóknar og vinstri grænna í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar telur að með þessum aðgerðum sé sveitarstjórn að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að stuðla að stöðugleika, halda aftur af verðbólgu á komandi ári og að kaupmáttur íbúanna aukist í raun. Með samþykkt tillögunnar verða gjöld og álögur á fjölskyldufólk og eldri borgara áfram með því lægsta sem gerist á landsvísu. Markmiðið er að tryggja að Skagafjörður sé og verði í fremstu röð sem ákjósanlegur búsetukostur.