Fara í efni

Sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs

14.02.2020
Steinn Leó Sveinsson

Steinn Leó Sveinsson hefur verið ráðinn í starf sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs.  Steinn Leó er menntaður byggingatæknifræðingur frá Horsens í Danmörku með aðaláherslu á hönnun og gerð jarðvegsmannvirkja, gatnagerð, fráveitu- og vatnslagnir, verklegar framkvæmdir og landmælingar.

Steinn Leó hefur starfað hjá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða ehf. í fjölda ára, fyrst sem verkefnastjóri jarðvinnu- og klæðingadeildar, en undanfarin ár hefur hann starfað sem framkvæmdastjóri þess. Í því starfi hefur hann haft ábyrgð á öllum rekstri félagsins, þar með talin fjármálastjórn, mannahald, rekstraráætlanagerð, verksamninga, tilboðsgerð, innkaup innlend og erlend, lagerhald og rekstur véla og tækja. Þá hefur hann einnig stýrt fjölda verkefna fyrir Ræktunarsambandið m.a. jarðvinnuframkvæmdum, gatnagerð, nýbyggingu vega og byggingu brúa.

Steinn Leó starfaði í Sisimiut á Grænlandi við vega- og flugvallagerð þar sem hann var staðarstjóri og bar að auki ábyrgð á gerð útsetningargagna, útsetningum á mannvirkjum og framkvæmdum. Að auki hefur hann starfað hjá Vegagerðinni, m.a. í hönnun vega og hönnun snjóflóða- og grjótvarna.

Steinn Leó hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu í málaflokkum veitu- og framkvæmdasviðs sem og af stjórnun og rekstri. Steinn Leó mun taka til starfa sem sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs í apríl nk. og tekur við embættinu af Indriða Þór Einarssyni sem gengt hefur því síðastliðin ár.