Sýningar og sund
Nú stendur Sæluvikan yfir í Skagafirði og ýmislegt um að vera og ekki síst fyrir yngstu kynslóðina því Leikhópurinn Lotta er mættur á svæðið. Hópurinn er með söngvasyrpu sem er stútfull af sprelli og húmor og verða sýningar í skólunum í dag fyrir leikskólanemendur og 1.-4. bekk.
Á dagskrá sæluvikunnar næstu tvo daga auk leikhópsins Lottu, þriðjudag og miðvikudag, er m.a. sölusýning notenda Iðjunnar í Landsbankanum á Sauðárkróki, sýningin í Safnahúsinu á verkum Hannesar Péturssonar og Jóhannesar Geirs, myndlistarsýningin Litbrigði samfélags í Gúttó og leiksýningin Beint í æð í Bifröst og einnig er opið í byggðasafninu í Glaumbæ. Í kvöld er yoga kynning í Aðalgötu 20.
Sundlaugar koma mikið við sögu á morgun en þá verður vorsýning hjá sundhópnum Skagfirsku sundmeyjunum í sundlauginni í heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki. Einnig verður konukvöld Infinity Blue í sundlaug Hofsóss þar sem þema kvöldsins verður núvitund, heilsa og útlit. Kynning á talnaspeki verður í Aðalgötu 20.
Dagskrá Sæluvikunnar má nálgast hér.