Takmörkun á starfsemi í stofnunum Sveitarfélagsins Skagafjarðar vegna COVID-19
Sveitarfélagið Skagafjörður hefur ákveðið að bregðast við neyðarstigi almannavarna vegna COVID-19 veirunnar í samráði við sóttvarnalækni Skagafjarðar og Austur-Húnavatnssýslu til að tryggja sem best öryggi í þjónustu og starfsemi fyrir fólk sem er í viðkvæmri stöðu eða með undirliggjandi sjúkdóma.
Sveitarfélagið Skagafjörður vinnur eftir viðbragðsáætlun við þessar aðstæður og hefur þjónustu fjölskyldusviðs verið forgangsraðað í samræmi við hana.
Eftirfarandi starfsstöðvum Sveitarfélagsins Skagafjarðar verður lokað tímabundið frá og með 10. mars.
Iðja hæfing, vinnustaður fyrir fatlað fólk á Sauðárkróki
Haft verður samband við alla þá einstaklinga sem eru í Iðju varðandi útfærslu á þjónustu meðan á þessar aðstæður eru uppi.
Dagdvöl aldraðra Sauðárkróki
Eftir að Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir 6. mars var sú ákvörðun tekin að loka sjúkra- og hjúkrunardeildum HSN fyrir heimsóknum ættingja og annarra gesta frá 7. mars. Við þessar aðgerðir er dagdvöl fyrir aldraða á Sauðárkróki einnig lokuð. Haft verður samband við alla þá einstaklinga sem eru í dagdvöl. Samstarf er milli dagdvalar, heimahjúkrunar og heimaþjónustu sveitarfélagsins um að útfæra þjónustu við þá einstaklinga á meðan þessar aðstæður eru uppi.
Skammtímadvöl fyrir fatlað fólk Grundarstíg Sauðárkróki
Haft verður samband við alla sem nýta þjónustu skammtímadvalar varðandi útfærslu á þjónustu á meðan þessar aðstæður eru uppi.
Upplýst verður um lokanir og þegar starfsemi hefst að nýju til allra hlutaðeigandi.
Bent er á að Sóttvarnalæknir beinir því sérstaklega til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa, einkum þeirra sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eldri einstaklinga, að huga vel að hreinlætisaðgerðum og forðast mannamót að óþörfu. Allar helstu upplýsingar um COVID-19 er að finna á vef Embættis landlæknis,https://www.landlaeknir.is/
Ákvarðanir um lokanir eru teknar af Viðbragðsteymi Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Viðbragðsteymið fylgist náið með þróun mála í útbreiðslu COVID-19 veirunnar og er í nánum samskiptum við Almannavarnanefnd Skagafjarðar um framkvæmd viðbragðsáætlunarinnar og gætir þess að búa yfir nýjustu upplýsingum frá Almannavarnarnefnd Ríkislögreglustjóra og Landlæknisembættinu um stig faraldursins.