Þakkir frá leikskólanum Ársölum til Kiwanisklúbbanna í Skagafirði
Í dag afhentu Kiwanisklúbbarnir Freyja og Drangey leikskólanum Ársölum höfðinglega gjöf að andvirði kr. 850.000-.
Í leikskólanum eru fötluð og langveik börn sem þurfa að fara í sjúkraþjálfun að jafnaði einu sinni í viku. Til að koma til móts við foreldra þessara barna hefur leikskólinn Ársalir boðið foreldrum upp á að stuðningskennari fari með börnin í sjúkraþjálfun á skólatíma. Farið er gangandi með börnin í kerru frá leikskólanum og hingað til hefur verið notast við venjulegar barnakerrur sem ætlaðar eru fyrir börn 2ja til 4ra ára. Þessar kerrur hafa einnig verið notaðar fyrir börnin þegar farið er í vettvangsferðir um bæinn okkar á vegum leikskólans.
Kiwanisklúbbarnir í Skagafirði, Freyja og Drangey tóku sig saman og gáfu leikskólanum fullbúna kerru frá Stoð ehf, sem er rótgróið þjónustufyrirtæki á heilbrigðissviði. Kerran hentar börnum frá eins árs aldri til sex ára og dugir því alla leikskólagöngu barnsins. Kerran er töluvert stærri en venjulegar kerrur og er búin góðum öryggisbúnaði og auðvelt er að aðlaga sæti og fótskemil að ólíkri stærð barnanna. Kerran er mun þægilegri fyrir börnin og er mjög létt og þægileg í umgengni fyrir þann sem keyrir hana. Þessi kerra mun verða stórkostleg breyting fyrir börnin og starfsfólkið sem ganga vikulega í sjúkraþjálfun og eins þegar farið er í vettvangsferðir.
Leikskólinn Ársalir þakkar Kiwanisklúbbunum Freyju og Drangey kærlega fyrir þessa höfðinglegu gjöf.