Þemadagar og maraþon í Árskóla
Dagana 6. - 8. október eru hinir árlegu þemadagar í Árskóla á Sauðárkróki en þemað í ár er endurvinnsla. Skólinn er þátttakandi í Comeniusarverkefni ásamt skólum frá átta öðrum löndum á miðstigi. Þemavinnan í ár er einn þáttur skólans í verkefninu en verkefnið tengist endurvinnslu og nefnist, Waste not, want not.
Fimmtudaginn 9. október kl 9:30 verða fulltrúar átta landa sem þátt taka í Comeniusarverkefninu boðnir velkomnir í íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Í framhaldi af því hefst dansmaraþon 10. bekkjar kl 10 og stendur yfir til kl 12 á hádegi á föstudeginum. Danssýning allra nemenda skólans verður í íþróttahúsinu á fimmtudeginum kl 17.
Opið hús verður í Árskóla alla þessa daga og er öllum velkomið að líta við og fylgjast með vinnu nemenda segir á heimasíðu skólans.