Fara í efni

Þjóðhátíðardagur Íslands haldinn hátíðlegur í Skagafirði

20.06.2023
Fjallkonan 2023, Laufey Harpa Halldórsdóttir.

Skagfirðingar héldu þjóðhátíðardaginn hátíðlegan í rjómablíðu þann 17. júní. Hátíðar- og skemmtidagskrá fór fram á Sauðárkróki með örlítið breyttu sniði og nýrri staðsetningu en hátíðarhöldin fóru fram sunnan við íþróttahúsið og á Árskólalóðinni þar sem sannkölluð karnivalstemning ríkti.

Atli Gunnar Arnórsson hóf dagskrána á hátíðarræðu. Atla þekkja margir, en hann er verkfræðingur og formaður Karlakórsins Heimis. Laufey Harpa Halldórsdóttir tók að sér hlutverk fjallkonunnar og fylgdu meðlimir Pilsaþyts Laufeyju á svið en þær saumuðu einmitt hinn glæslilega fjallkonubúning sem Laufey klæddist. Leikfélag Sauðárkróks steig á svið og fluttu nokkur lög úr leikritinu Benedikt búálfi sem þau koma til með að sýna í Bifröst í haust. Tónlistarmaðurinn og Skagfirðingurinn Atli Dagur Stefánsson lauk svo dagskrá á sviði með flutningi á frumsömdum lögum.

Hátíðarhöldin héldu svo áfram á svæðinu þar sem grillaðar voru pylsur í boði sveitarfélagsins, alls konar leikir voru í boði, m.a. fótbolti með breyttu sniði, reipitog, hoppukastalar, teymt undir börnum á hestbaki og skátarnir voru með candyfloss, loftblöðrur o.fl. til sölu. Dagskránni lauk svo með götukörfuboltamóti þar sem spilað varð þrjá á þrjá í tveimur flokkum. Þátttaka á mótinu var vonum framar og það voru engar aðrar en meðlimir Pilsaþyts sem hófu leika á körfuboltamótinu. Það má því með sanni segja að hátíðarhöldin hafi heppnast vel og skemmdi góða veðrið ekki fyrir.

Það var margt annað um er að vera í Skagafirði á þjóðhátíðardaginn. Skemmtileg hefð hefur skapast hjá fornbílaeigendum í Skagafirði þar sem efnt er til hópaksturs fornbíla um Skagafjörð á þjóðhátíðardaginn en það eru Agnar á Miklabæ og Jón í Miðhúsum sem efna til árlegrar ökuferðar fornbíla á þjóðhátíðardaginn. Ferðin hófst við Varmahlíðarskóla, ekið frá Varmahlíð að Flugumýri, hlýtt þar á messu og þaðan var farið í Héðinsminni og fengið sér hressingu. Síðan var ekið á Sauðárkrók þar sem ferðinni lauk á planinu við Kaupfélag Skagfirðinga.

Í tilefni af 17. júní var kaffihlaðborð í Áshúsi í Glaumbæ þar sem í boði voru 17 sortir af bakkelsi til að gæða sér á. Frír aðgangur var á safnsvæðið fyrir þau sem mættu í íslenskum þjóðbúning. Þá var einnig kaffihlaðborð á Kaffi Krók í tilefni dagsins.

Hér að neðan má sjá svipmyndir frá hátíðardagskránni: