Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir íþróttamaður Skagafjarðar 2015
Kjör íþróttamanns Skagafjarðar fyrir árið 2015 fór fram í Húsi frítímans sunnudaginn 27. desember síðastliðinn. Að kjörinu standa UMSS og Sveitarfélagið Skagafjörður. Það var hin unga og efnilega frjálsíþróttakona Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir úr Tindastóli sem hlaut titilinn að þessu sinni.
Þóranna er sexfaldur Íslandsmeistari í frjálsíþróttum 2015 bæði í aldursflokki 15-22 ára og í fullorðinsflokki. Á innanhússmótum varð hún Íslandsmeistari í hástökki kvenna, stökk 1,67 m, sem er skagfirskt héraðsmet og hún sigraði einnig í hástökki og 60 m grindahlaupi á MÍ 15-22 ára. Á utanhússmótum varð hún Íslandsmeistari í hástökki og sigraði í grindahlaupi og hástökki á MÍ 15-22 ára. Hún var útnefnd frjálsíþróttakona UMSS 2015 á uppskeruhátíð UMSS og íþróttamaður Tindastóls. Þóranna var valin í landslið Íslands til að keppa í hástökki bæði á Smáþjóðaleikunum og í Evrópukeppni landsliða og stóð sig með prýði.
Lið ársins: Unglingaflokkur Tindastóls í körfuknattleik karla en þeir urðu Íslandsmeistarar tímabilið 2014-2015 og fóru í gegnum tímabilið ósigraðir.
Þjálfari ársins: Israel Martin körfuknattleiksþjálfari. Hann þjálfaði drengjaflokk, unglingaflokk og meistaraflokk karla veturinn 2014-2015 með miklum ágætum. Drengjaflokkurinn endaði tímabilið í 3. sæti, unglingaflokkur sem Íslandsmeistarar og meistaraflokkur í 2. sæti á Íslandsmótinu.
Samhliða kjörinu á íþróttamanni Skagafjarðar voru ungu og efnilegu íþróttafólki veittar viðurkenningar með hvatningu til áframhaldandi ástundunar í sínum greinum.