Þorrablótin og unga fólkið
Kæru foreldrar og forráðamenn!
Nú er tími þorrablótanna, þar sem fólk kemur saman, borðar þorramat, hittir skemmtilegt fólk, skemmtir sér yfir gríni og glensi samborgara og dansar fram á nótt. En á þessum skemmtunum er áfengi haft um hönd og viljum við því hvetja ykkur, kæru foreldrar og forráðamenn til þess að taka meðvitaða ákvörðun um það hvort unglingurinn ykkar fái að fara á þorrablót. Ekki má gleyma því að ábyrgð foreldra/forráðamanna nær til 18 ára aldurs og aldurstakmark áfengisneyslu er 20 ár. Höfum í huga að þegar við höfum áfengi um hönd, erum við fyrirmynd barna okkar! Hvert ár sem unglingur bíður með að smakka áfengi skiptir miklu þegar horft er til alvarlegra afleiðinga áfengisneyslu.
Stöndum því saman, sýnum ábyrgð og munum að það er okkar að hugsa um heilsu og framtíð einstaklinga sem eru í okkar umsjá!
Forvarnarteymi Sveitarfélagsins Skagafjarðar