Fara í efni

Fjórða helgi í aðventu

16.12.2016
Gamli bærinn í Glaumbæ

Líða fer að jólum segir í góðum dægurlagatexta og nú er komin fjórða helgin í aðventunni. Í dag er einmitt síðasti dagurinn til að koma jólakortum í B-póst innanlands, A-póst til Evrópu og jólapökkum til vina og ættingja á Norðurlöndunum.

Það fylgir því viss stemming í svartasta skammdeginu að fara í gamla bæinn í Glaumbæ en hann er opinn um helgina milli kl 15 og 17, laugardag og sunnudag og frítt inn. Flest fyrirtæki eru með opið lengur en vanalega og eru opnar vinnustofur hjá Sólon í Gúttó og Skrautmeni í Áshildarholti. Maddömurnar standa vaktina í Maddömukoti, opið í Alþýðulist og það er aðventukaffihlaðborð í Áskaffi.

Karlakórinn Heimir hefur upp raust sína á laugardaginn í Skagfirðingabúð kl 16 og á Dvalarheimili aldraðra kl 17. Margrét Eir er með jólatónleika í Sauðárkrókskirkju á laugardagskvöldinu kl 20. Með henni eru hljóðfæraleikarnir Breki Hrafn og Daði Birgissynir ásamt Kirkjukór Sauðárkrókskirkju, Rögnvaldi Valbergssyni og systrunum Bergrúnu Sólu og Malen Áskelsdætrum.

Um að gera að njóta aðventunnar.