Fara í efni

Tillaga að deiliskipulagi, Neðri-Ás 2

10.07.2024
Tillaga að deiliskipulagi fyrir frístundabyggð á Neðri-Ási 2

Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti á 26. fundi sínum þann 10. apríl 2024 að auglýsa deiliskipulagstillögu fyrir frístundabyggð að Neðri-Ási 2, land 3 og 4, Hjaltadal, Skagafirði, í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Deiliskipulagstillagan er í samræmi við Aðalskipulag Skagafjarðar 2020-2035. Í Aðalskipulaginu er á svæðinu gert ráð fyrir frístundarbyggð með allt að 50 húsum og er það táknað F-8 á uppdrætti með aðalskipulaginu.

Skipulagssvæðið er staðsett utarlega í Hjaltadal í Skagafirði þar sem áður var Áskot og stendur norðvestan við Neðri-Ás. Svæðið er brot úr jörðinni Neðri-Ás 2, liggur norðan jarðarinnar, austan malarvegar nr. 769 og er um 8,5 ha að stærð.

Svæðið er staðsett á ási sem skilur að Hjaltadal í vestri og Kolbeinsdal í austri. Landslag svæðisins einkennist annars vegar af grónu túni og hins vegar holti. Talsvert hefur verið gróðursett, aðallega lerki og birki. Skipulagssvæðið hallar frá austri til vesturs með ægifögru útsýni inn og út Hjaltadalinn með fjarðarsýn norður Skagafjörð. Hæðarmunur á skipulagssvæðinu frá vestri til austurs er u.þ.b. 8 m. Hefðbundinn búskapur hefur verið aflagður á skipulagssvæðinu en landið verið nýtt að hluta undir sumarhús.

Helstu markmið deiliskipulagsins eru að skipuleggja alls 17 frístundalóðir, ein lóð fyrir baðhús og ein fyrir tækjaskemmu.

Deiliskipulagstillagan er lögð fram á uppdrætti og greinargerð dags. 08.03.2024.

Deiliskipulagstillagan er auglýst frá 10. júlí til og með 30. ágúst 2024. Hægt er að skoða tillöguna í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar undir málsnúmeri 880/2024 á www.skipulagsgatt.is. Tillagan mun jafnframt liggja frammi til kynningar í Ráðhúsinu, Skagfirðingabraut 17-21, Sauðárkróki á skrifstofutíma frá kl. 10-12 og kl. 12:30-15. Einnig er hægt að nálgast gögnin á heimasíðu Skagafjarðar www.skagafjordur.is.


Þau sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að koma á framfæri ábendingum varðandi deiliskipulagstillöguna. Umsagnir skulu vera skriflegar og berast í gegnum Skipulagsgáttina www.skipulagsgatt.is í síðasta lagi 30. ágúst 2024. Einnig er hægt að skila inn umsögnum til skipulagsfulltrúa í afgreiðslu Ráðhússins, Skagfirðingabraut 17-21, 550 Sauðárkróki eða á netfangið skipulagsfulltrui@skagafjordur.is.
Umsagnir um skipulagsmál sveitarfélagsins teljast til opinberra gagna. Vakin er athygli á því að nöfn og umsagnir koma fram í fundargerðum Skipulagsnefndar og eru aðgengileg opinberlega á Skipulagsgáttinni.
Persónuupplýsingar eru aðeins nýttar í þeim tilgangi að vinna úr athugasemdum og auðkenna sendanda.

Skipulagsfulltrúi Skagafjarðar

 

Neðri Ás 2 - Deiliskipulagstillaga

Neðri Ás 2 - Greinargerð