Tillaga að deiliskipulagi - Staðarbjargavík
Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti á 27. fundi sínum þann 15. maí 2024 að auglýsa deiliskipulagstillögu fyrir Staðarbjargavík, Hofsósi, Skagafirði skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan er sett fram á uppdrætti með greinargerð nr. DS01 dags. 24.04.2024, unnin af Stoð ehf. verkfræðistofu.
Eitt af viðfangsefnum skipulagsins er að skapa grundvöll til að bæta gönguleiðina og gera hana öruggari. Uppdrátturinn sýnir fyrirhugaða uppbyggingu innan skipulagssvæðisins og leiðbeinandi staðsetningu göngustíga, útsýnispalla og útsýnisstaði.
Svæðið afmarkast af Suðurbraut og Suðurbraut 18 að norðan, beinni línu á milli Suðurbrautar og sjávar að austan, strandlínu að sunnanverðu og línu frá sjó að Suðurbraut 18 að vestan. Afmörkun svæðisins er unnin með hliðsjón af gögnum á hugmyndastigi varðandi fyrirhugaðar framkvæmdir. Svæðið er um 13.164 m² að stærð og er að mestu leyti grasi gróin brekka sem nær frá Suðurbraut og Suðurbraut 18 til sjávar. Nyrst og efst er svæðið í um 25 m hæð yfir sjó en lækkar til suðvesturs niður í sjávarmál. Sunnarlega, fyrir miðju svæði, eru stuðlabergsmyndanir sem eru að hluta til sýnilegar. Frá bílastæðunum á Suðurbraut 18 er gönguleið niður brekkuna að stuðlaberginu sem þar er.
Tillagan er auglýst frá 22. maí til og með 5. júlí 2024. Hægt er að skoða skipulagstillöguna í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar á www.skipulagsgatt.is undir málsnúmerinu 210/2024. Tillagan mun jafnframt liggja frammi til kynningar í Ráðhúsinu, Skagfirðingabraut 17-21, Sauðárkróki á skrifstofutíma frá kl. 10-12 og kl. 12:30-15. Einnig er hægt að nálgast gögnin hér fyrir neðan.
Þau sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að koma á framfæri ábendingum varðandi deiliskipulagstillögurnar. Umsagnir skulu vera skriflegar og berast í gegnum Skipulagsgáttina www.skipulagsgatt.is í síðasta lagi 5. júlí 2024. Einnig er hægt að skila inn umsögnum til skipulagsfulltrúa í afgreiðslu Ráðhússins, Skagfirðingabraut 17-21, 550 Sauðárkróki eða á netfangið skipulagsfulltrui@skagafjordur.is.
Umsagnir um skipulagsmál sveitarfélagsins teljast til opinberra gagna. Vakin er athygli á því að nöfn og umsagnir koma fram í fundargerðum Skipulagsnefndar og eru aðgengileg opinberlega á Skipulagsgáttinni. Persónuupplýsingar eru aðeins nýttar í þeim tilgangi að vinna úr athugasemdum og auðkenna sendanda.
Skipulagsfulltrúi Skagafjarðar