Fara í efni

Tónleikar og aðventuævintýri

11.12.2015
Frá Hólum í Hjaltadal

Desembermánuður líður áfram og nú er þriðji í aðventu framundan. Það er ýmislegt í boði í Skagafirði þessa helgina, tónleikar, aðventuhátíðir og ævintýri og hægt að velja sér jólatré.

Jólatónleikar Tónlistarskóla Skagafjarðar eru á Hólum á laugardeginum kl 11 og á Hofsósi kl 14. Maddömurnar verða með opið og bjóða jólate og piparkökur, verslanir og fyrirtæki verða með ýmis tilboð í gangi og það verður jólapubquiz í Sólvík á Hofsósi og trúbador á Kaffi Krók svo eitthvað sé nefnt.

Aðventuævintýri verður á Hólum á sunnudeginum milli kl 13 og 17. Fjáröflun og jólamarkaður verður í Nýjabæ og þar verður til sölu heitt súkkulaði og bakkelsi. Kirkjan verður opin ásamt Sögusetri íslenska hestsins og Bjórsetrinu. Í sögusetrinu verður hægt að kaupa piparkökur og skreyta þær á staðnum. Opið verður Undir Byrðunni og þar verður hægt að kaupa laufabrauð og skera það út. Óvæntir gestir munu mæta á svæðið og eru allir velkomnir.

Skógræktarfélag Skagfirðinga býður fólki að koma í skógræktirnar í Varmahlíð og Hólum og höggva sér jólatré milli kl 12 og 15 en margar fjölskyldur hafa gert það að hefð að fara saman og velja sér tré fyrir jólin.

Aðventuhátíð verður á Skaganum kl 16  og fer hún fram í Skagaseli.

Hér má nálgast jóladagskrá þessarar viku.