Um lóðaleigusamninga á Nöfunum á Sauðárkróki
Fjöldi leigusamninga um lóðir á Nöfum á Sauðárkróki runnu út síðastliðin áramót. Þeir leigutakar sem fyrir eru á lóðunum eiga samkvæmt skilmálum leigusamnings forleigurétt á þeim lóðum sem þeir hafa haft til leigu. Formlegt bréf var sent á leigutaka þess efnis að óskað var eftir viðbrögðum um hvort leigutakar hyggðust nýta sér forleiguréttinn. Fyrir lok febrúar lauk vinnu við að fá staðfestingu frá leigutökum allra lóða sem um ræðir um hvort þeir hyggist nýta sér forleigurétt sinn.
Þessa stundina fer fram vinna við að stilla upp leigusamningum og má gera ráð fyrir að haft verði samband við leigutaka í nokkrum áföngum til að bjóða þeim að undirrita nýjan samning. Fyrsti áfangi í þeirri vinnu er áætlaður þegar í næstu viku og verður haft samband við leigutaka þegar samningsgögn liggja klár til undirritunar.
Allir leigutakar sem hafa óskað eftir að nýta forleigurétt sinn munu fá tilboð um að undirrita nýjan leigusamning um lóðir sem þeir hafa haft á leigu. Vonast er til að vinnu við endurnýjun leigusamninga verði lokið fyrir páska. Að þeirri vinnu lokinni liggur fyrir hvaða lóðir verða lausar til endurúthlutunar.
Fyrir frekari upplýsingar er hægt að senda tölvupóst á Baldur Hrafn Björnsson, sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs á netfangið baldurhrafn@skagafjordur.is.