Fara í efni

Umhverfisdagur Skagafjarðar

16.05.2022
Reykjarhóllinn og Varmahlíð

Umhverfisdagurinn í Skagafirði hefur verið haldinn árlega í rúma þrjá áratugi en að þessu sinni verður hann haldinn laugardaginn 21. maí næstkomandi. Í ár er lögð áhersla á að fólk líti í kringum sig og njóti nærumhverfis, náttúrunnar og þess sem náttúran hefur upp á að bjóða. Tilvalið er að nota daginn til útivistar, hefja daginn til dæmis á að fara í gönguferðir um einhvern skóga héraðsins svo sem í Varmahlíð, við Silfrastaði, að Hólum, rölta um Litla-Skóg, skoða stuðlabergsfjöruna við Hofsós, eða eitthvað allt annað sem fólki langar að skoða. Jafnframt er kjörið að huga að snyrtingu nærumhverfis síns þennan dag.

Í tilefni dagsins verður opið hús í nokkrum gróðrarstöðvum héraðsins. Í gróðurstöð sveitarfélagsins í Sauðármýri eru ræktuð sumarblóm sem skreyta samfélag okkar Skagfirðinga á sumrin. Opið hús verður í gróðurstöðinni frá klukkan 9-12 á umhverfisdaginn. Jafnframt verður opið hús í gróðurstöðinni Laugarmýri frá kl. 13-18 en þar fer fram fjölbreytt framleiðsla á m.a. sumarblómum, forræktuðu grænmeti, tómötum, gúrkum, jarðarberjum, blómberjum, plómum, grænkáli, trjám og runnum, salati og kryddjurtum. Gróðurstöðin að Starrastöðum verður einnig opin þennan dag frá kl. 13-18 en þar eru framleiddar rósir af ýmsum gerðum.

Sveitarfélagið hvetur fólk til að bæði huga að umhverfi sínu og einnig og ekki síður að njóta umhverfisins á laugardaginn.