Umhverfisverðlaun Skagafjarðar veitt í 20. sinn
Umhverfisverðlaun Skagafjarðar voru veitt í 20. sinn nú fyrir helgi. Líkt og síðastliðin tuttugu ár voru það meðlimir í Soroptimistaklúbbi Skagafjarðar sem sáu um og stóðu að verðlaununum sem er samvinnuverkefni klúbbsins og sveitarfélagsins Skagafjarðar. Farnar voru skoðunarferðir um Skagafjörð í sumar til að meta bæi, hverfi og svæði í firðinum fyrir umhverfisverðlaunin. Úr varð að veittar voru sjö viðurkenningar í fimm flokkum.
Í lok athafnar færði Einar E. Einarsson, forseti sveitarstjórnar, Ernu Baldursdóttur, formanni Soroptimistaklúbbs Skagafjarðar þakkir fyrir ánægjulegt samstarf í tuttugu ár.
Handhafar Umhverfisverðlauna Skagafjarðar 2024:
Sveitabýli með hefðbundinn búskap
Stóru – Akrar 2
Á Stóru - Ökrum 2 er rekið kúabú, stunduð hestamennska og ræktun á sauðfé. Eigendur eru Ragnhildur Jónsdóttir og Agnar Gíslason, þau tóku við búi af Huldu Ásgrímsdóttur og Jóni Sigurðssyni, foreldrum Ragnhildar vorið 2013 og eru fjórða kynslóð ábúenda. Fram kom í samtali við Ragnhildi og Agnar að þau þakka smekkvísi Huldu og dugnaði Jóns hve falleg ásýnd og skipulag bæjarins er en þau tóku síðan við að viðhalda og setja sinn svip á umhverfið. Stóru – Akrar 2 er við þjóðveg eitt og fagurt er heim að líta þegar ekið er um sveitina, fjós, útihús og íbúarhús vel og fallega römmuð inn með trjám og lággróðri og fallegt samræmi er með litaval húsa.
Sveitabýli án hefðbundins búskapar
Varmilækur 2
Í flokknum Sveitabýli án hefðbundins búskapar hljóta hjónin Björn Sveinsson og Magnea Guðmundsdóttir að Varmalæk 2 verðlaun. Heildar yfirbragð býlisins er mjög gott og einkennist það af snyrtimennsku og smekkvísi. Björn byrjaði að planta trjám í garðinum árið 1982 og nú er garðurinn sameiginlegt verkefni og áhugmál þeirra hjóna sem að þeirra eigin sögn veitir þeim gleði og vellíðan. Í litlu gróðurhúsi sáir Magnea sjálf fyrir nánast öllum sumarblómum sem fara í garðinn. Þau hafa jafnframt lagt sig fram við að endurnýta efni, timbur og fleira sem þau nota til að gera garðinn huggulegan.
Lækjarholt
Í flokknum Sveitabýli án hefðbundins búskapar hljóta hjónin Arnfríður Arnardóttir og Guðmundur Stefánsson eigendur að Lækjarholti einnig verðlaun. Það er sannarlega fallegt um að litast uppi á hæðinni fyrir ofan Messuholt, þó ekki sjáist mikið frá veginum.
Lóð í þéttbýli
Gilstún 28
Þar búa hjónin S. Kristrún Snjólfsdóttir og Sigurbjörn Bogason. Þau byggðu þetta fallega hús árið 2005 og fluttu inn árið 2007. Lóðina hafa þau hannað og unnið af mikilli natni. Frágangur lóðarinnar er til fyrirmyndar hvar sem á hann er litið.
Laugatún 2
Önnur af tveimur fallegustu lóðunum í sveitarfélaginu Skagafirði er Laugatún 2 , Sauðárkróki. Þar búa hjónin Sigríður Snorradóttir og Kristján Valgarðsson. Að sögn kristjáns var það þeirra fyrsta verk þegar þau eignuðust húsið og garðinn að huga að endurbótum, eins og að bjarga runnalengjunni umhverfis garðinn. Þau eiga heiður skilið fyrir þennan glæsilega garð.
Lóð við fyrirtæki
Lambeyri
Í flokknum lóð við fyrirtæki hlýtur ferðaþjónustufyrirtækið Lambeyri tjaldsvæði verðlaun. Friðrik Rúnar Friðriksson er eigandi og hefur fyrirtækið verið í rekstri síðan 2013. Heildaryfirbragð svæðisins er mjög gott og snyrtimennska ríkjandi. Þrjú aðstöðuhús eru á svæðinu, ásamt litlu sumarhúsi, sundlaug og búningsklefum. Húsunum er öllum vel við haldið. Aspir og Birki eru í kringum tjaldsvæðið til að mynda skjól. Tjaldsvæðið er eitt af fáum tjaldsvæðum landsins sem starfrækt er allt árið um kring og hefur aðsókn verið ljómandi góð að sögn Rúnars.
Einstakt framtak
Steinullarmolta
Starfsleyfið frá 2008 segir að trefjaúrgangur sem inniheldur óhert bindiefni skuli endurvinnast, t.d. með jarðgerð. Tímabundin urðun er heimil meðan þróun jarðgerðar í jarðgerðarstöð stendur yfir. Þegar þetta var skrifað 2008 var gengið út frá því að jarðgerðarstöð á Nöfunum yrði framtíðarlausn. Reyndin varð önnur. Byrjað var að þróa moltugerð á lóð fyrirtækisins upp úr 2009 að finnskri fyrirmynd. Notast var við hrossaskít og trjákurl og fóru nokkur ár í að safna reynslu. Mis vel gekk að ná upp hita í efnið. Aðal vandamálið var að trjákurlið var mismunandi. Sumarið 2019 var fyrst prófað að nota gras. Þetta breytti öllu. Rétta blandan af steinullarúrgangi, hrossaskít og grasi hefur frá þessum tíma gefið hitastigið (+30°C) sem þarf til að brjóta niður formaldehyðið í hratinu. Árið 2021 fékkst staðfesting frá MAST á að „Steinullarmolta“ hafi verið skráð sem áburður undir tegundarheitinu „Jarðvegsbætandi efni“. Árið 2023 fékk Steinull ótímabundið starfsleyfi fyrir moltuframleiðslunni frá Mast.
Sveitarfélagið Skagafjörður og Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar óska handhöfum Umhverfisverðlauna Skagafjaraðar til hamingju og þakkar þeim jafnframt fyrir þeirra framlag við að halda sveitarfélaginu snyrtilegu.
Einar E. Einarsson færir Ernu Baldursdóttur, fyrir hönd Sóroptimistabklúbbs Skagafjarðar þakkir fyrir ánægjulegt samstarf s.l. 20 ár. Mynd: Gunnhildur Gísladóttir.