Umhverfisviðurkenningar Skagafjarðar 2022
Umhverfisviðurkenningar Skagafjarðar árið 2022 voru veittar í Húsi Frítímans fimmtudaginn 8. september og voru viðurkenningarnar sjö að þessu sinni. Þetta var átjánda árið sem Soroptmistaklúbbur Skagafjarðar hafði veg og vanda að tilnefningum og afhendingu umhverfisviðurkenninga fyrir hönd sveitarfélagsins.
Fyrirkomulag Soroptimistakvenna við að skoða og meta býli og lóðir í dreifbýli og þéttbýli Skagafjarðar var líkt og áður, sex hópar skiptu með sér svæðinu frá Fljótum inn allan Skagafjörð að Hofsvöllum og út að Hrauni á Skaga. Akrahreppur bættist svo við skoðunarsvæðið í ár og var það einkar ánægjulegt.
Að mörgu er að hyggja við vinnu verkefnisins og valnefnd klúbbsins endurskoðar reglulega viðmiðin varðandi umhverfismatið. Sem dæmi um þau atriði sem horft er til og gefin einkunn fyrir er m.a. frágangur bygginga/íbúðarhúsa, geymsla tækja og áhalda, viðhald girðinga, almenn umgengni og heildarmynd húsa, lóða og sveitabýla.
Að mati Soroptimista er umgengni stöðugt að batna í sveitarfélaginu og íbúar að gera umhverfið snyrtilegt og fallegt en í þessu eins og mörgu öðru má lengi gott bæta. Með samtakamætti íbúa má ná miklum árangri í þessum málum sem öðrum, til ánægu fyrir okkur sjálf og þá sem sækja okkur heim.
Á þessum 18 árum sem Soroptmistaklúbburinn hefur haft veg og vanda af tilnefningum til umhverfisviðurkenninga í Skagafirði hafa 100 viðurkenningar verið veittar. Í ár voru veittar sjö viðurkenningar í fimm flokkum og voru það: Sveitabýli með hefðbundinn búskap, snyrtilegasta lóð við fyrirtæki, snyrtilegasta lóð við opinbera stofnun, einstakt framtak og í flokknum snyrtilegasta lóð í þéttbýli voru þrjár lóðir valdar, þ.e ein í Varmahlíð, ein á Hofsósi og ein á Sauðárkróki. Það var sérstaklega ánægjulegt að viðurkenningar dreifðust vel um sveitarfélagið.
Umhverfisviðurkenningar Skagafjarðar 2022
Sveitabýli með hefðbundinn búskap var valið Flugumýrarhvammur, eigendur eru Sigrún Hrönn Þorsteinsdóttir og Rögnvaldur Ólafsson. Í umsögn segir að þar sé einstök snyrtimennska og fegrun umhverfis höfð að leiðarljósi hvert sem litið er. Þegar ekið er í hlað blasi fjósið við með blómum skrýddum veggjum. Í garðinum er fjölbreyttur gróður, gróðurhús með ávaxtatrjám og býlið allt og umhverfi þess allt hið glæsilegasta.
Snyrtilegasta lóð við fyrirtæki var valið Dalasetur en þar hafa þau Jakobína Helga Hjálmarsdóttir, Þórarinn Þórðarson, Daníel Þórarinsson og Stefán Óskar Hólmarsson byggt upp einstaklega snyrtilegt og fallegt svæði í landi Helgustaða í Unadal. Þar hafa verið byggð þrjú bjálkahús þar sem boðið er upp á gistingu, stórt landssvæði grætt upp, trjám plantað og markmiðið að byggja upp heilsusetur þar sem hægt er að njóta náttúrunnar í fjallgöngum, í heitum potti við ána, í frisbígolfi eða bara njóta kyrrðarinnar.
Snyrtilegasta lóð við opinbera stofnun var valin Byggðastofnun, Arnar Már Elíasson forstöðumaður Byggðastofnunar tók við viðurkenningunni.
Hér þykir hafa tekist einstaklega vel til við hönnun og frágang húss og lóðar. Allt snyrtilegt og vel um hugsað og til eftirbreytni þegar svo vel er gengið frá húsi og lóð strax. Hjá Byggðastofnun hefur verið sett fram það markmið að við rekstur og viðhald bygginga og lóða á vegum stofnunarinnar skuli leitast við að velja vistvæna kosti hverju sinni s.s. málningarvörur, ljósaperur, garðaúðun, áburð o.fl.eins og segir á heimasíðu Byggðastofnunar.
Einstakt framtak: Kakalaskáli. Hjónunum á Kringlumýri, þeim Maríu Guðmundsóttir og Sigurði Hansen var veitt viðurkenning fyrir einstakt framtak, sem er uppsetning Grjóthers Hauganesbardaga ásamt uppbyggingu og starfsemi í Kakalaskála. Þar hefur verið sett upp einstök sögu- og listaverkasýning þar sem sögusviðið er Sturlunga með áherslu á ævi Þórðar kakala. Grjótherinn er sunnan Kakalaskála og er það gríðarstórt og einstakt útilistaverk sem sýnir staðsetnigu hermanna sem áttust við í Hauganesbardaga árið 1246, túlkað með 1320 grjóthnullungum og járnkrossar á nokkrum þeirra tákna þá sem féllu í þessum mannskæðasta bardaga Íslandssögunnar. Þetta einstaka framtak Kringlumýrarhjóna er ávinningur fyrir samfélagið allt og fyrir það ber að þakka.
Lóðirnar þrjár sem fengu umhverfisviðurkenningu í ár eru ólíkar en eiga það allar sameiginlegt að vekja athygli og aðdáun fyrir snyrtimennsku og góða umhirðu, lóðirnar eru:
Furulundur 4 Varmahlíð, en þar er eigandi Helga Bjarnadóttir. Í garðinum er fjölbreyttur gróður og margar tegundir blóma, húsi og lóð er vel við haldið og natni og snyrtimennska í hávegum höfð. Eitt blómakerið vekur sérstaka athygli en það er barnavagn þar sem fallegum blómum hefur verið plantað.
Kirkjugata 7 Hofsósi, eigendur Dagmar Ásdís Þorvaldsdóttir og Ragnar Þór Jónsson. Hús og lóð við Kirkjugötu 7 er dæmi um vel heppnaða endurnýjun á húsi og lóð þar sem einfaldleiki og snyrtimennska er eftirtektarverð. Allur frágangur einstaklega fallegur og stílhreinn hvert sem litið er.
Raftahlíð 44 Sauðárkróki, eigendur Eva Óskarsdóttir og Svavar Sigurðsson. Þessi garður er sannkölluð undraveröld, dæmi um “lítinn garð” þar sem öllu er haganlega fyrir komið og lóðin ber þess merki að eigendur njóta þess að rækta fjölbreyttan gróður, blóm, tré og runna. Gróðurhús með mörgum tegundum ávaxtaplantna og grænmetis er í garðinum ásamt tjörn með fiskum sem synda innan um vatnaliljurnar. Afrennsli hússins hitar upp gólf gróðurhússins og rennur síðan í tjörnina. Afrennsli tjarnarinnar með tilheyrandi áburði er svo notað til vökvunar í gróðurhúsinu og einnig innanhúss, sannkölluð hringrás.
Fyrir hönd sveitarfélagsins Skagafjarðar óskaði Hrefna Jóhannesdóttir formaður umhverfis- og samgöngunefndar Skagafjarðar þeim sem fengu umhverfisviðurkenningar 2022 til hamingu og þakkaði þeim þá hvatningu sem þau væru íbúum. Fyrir hönd Soroptimistaklúbbs Skagafjarðar voru það Lilja Gunnlaugsdóttir formaður Soroptimistaklúbbs Skagafjarðar og Fanney Ísfold Karlsdóttir formaður fjáröflunarnefndar klúbbsins sem óskuðu þeim sem viðukenningar hlutu til hamingu og færðu þeim þakkir fyrir að vera okkur hinum fyrirmyndir. Einnig þökkuðu þær sveitarfélaginu fyrir að fá að vinna þetta ánægjulega verkefni og vilja hvetja íbúa Skagafjarðar til að leggja áfram sitt af mörkum til að fegra fjörðinn okkar.