Uppfærsla á visitskagafjordur.is og nýtt vefumsjónakerfi
Ferðaþjónustu- og upplýsingavefurinn www.visitskagafjordur.is hefur nú gengið í gegnum heildarendurskoðun og tekið gagngerum útlitsbreytingum samhliða því sem nýtt vefumsjónarkerfi hefur verið tekið í notkun. Er þar um að ræða vefumsjónarkerfið Moya frá Stefnu ehf. á Akureyri.
Stefnumótun, þarfagreining og grunnhönnun síðunnar var unnin í góðu samstarfi Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Félags ferðaþjónustunnar í Skagafirði og Stefnu ehf. Var þar leitast við að vefurinn væri notendavænn, aðgengilegur og myndrænn, auk þess sem hann er unninn í svokallaðri responsive design hönnun sem þýðir að vefurinn á að vinna mjög vel hvort sem þú ert að skoða hann á tölvuskjá, í spjaldtölvu eða snjallsíma. Meðal annarra nýjunga frá eldri vef er kvikmyndað kynningarefni, greinargóðar kortatilvísanir og öflug þema- og árstíðaflokkun. Þá er á síðunni að finna hlekki sem vísa á facebook- og twitter-síður visitskagafjordur.
Vefurinn er fyrst um sinn eingöngu á ensku en fljótlega verður ráðist í innsetningu á íslenskum texta og mögulega fleiri tungumálum í kjölfarið.
Þess er vænst að breytingarnar falli í góðan jarðveg hjá notendum og vefurinn verði miðill sem gagnist vel við að laða enn aukinn fjölda gesta í Skagafjörð.