Uppgjörsálestur hjá Skagafjarðarveitum
Ágætu viðskiptavinir Skagafjarðarveitna sem eru með mælda notkun á heitu vatni.
Daganna 18. og 19. september sl. var álestur af öllum hitaveitumælum hjá Skagafjarðarveitum. Þessi álestur er uppgjörsálestur fyrir síðustu 11 mánuði, en síðast var lesið af í október 2023. Má því búast við að upphæð reikninga vegna september verði önnur en verið hefur síðasta árið.
Á síðustu árum hafa Skagafjarðarveitur lesið reglulega af mælum stórnotenda. Einnig hafa bæst við þann álestur íbúðarhús í þéttbýli og bændabýli. Sú ákvörðun var tekin á fundi veitunefndar (nú Landbúnaðar og innviðanefnd) þann 5. febrúar síðastliðinn að lesa af öllum hitaveitumælum mánaðarlega. Þannig að hér eftir gildir sú meginregla að hitaveitureikningarnir byggja á raunálestri. Þessi breyting gerir það að verkum að reikningar verða hærri yfir köldu mánuðina og lægri þá hlýrri.
Álesturinn fer þannig fram að starfsmenn Skagafjarðarveitna keyra um fjörðinn og þar til gert app í snjalltæki nemur boð frá mælunum. Gert er ráð fyrir að álesturinn fari fram á tímabilinu 16. til 20. hvers mánaðar en reikningar verða áfram sendir út um mánaðarmót.
Með þessu er vonast til að bilanir í húskerfum uppgötvist fyrr og greiðendur reikninga geti brugðist við strax ef óeðlileg notkun kemur fram.
Skagafjarðarveitur
Sími 4556200, netfang skv@skv.is