Fara í efni

Upplýsingar vegna samkomubanns

13.03.2020

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum í dag hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga sem felur m.a. í sér að skólahald verður með breyttu sniði. Framhalds- og háskólum verður lokað og fjarkennsla útfærð en starf leik- og grunnskóla verður áfram heimilt. Nánari útfærslur þess verða unnar samkvæmt tilmælum stjórnvalda en sveitarfélög landsins vinna nú að skipulagningu skólastarfs miðað við framangreindar ákvarðanir.


Þegar hefur verið ákveðið að mánudaginn 16. mars verði starfsdagur í leik- og grunnskólum í Skagafirði, auk Tónlistarskóla Skagafjarðar, Árvistar og Frístundar í Varmahlíð til þess að stjórnendur og starfsmenn leik-, grunn- og tónlistarskóla geti skipulagt skólastarfið sem best á því tímabili sem takmörkunin nær til og undirbúið breytingar.


Foreldrar leik-, grunn- og tónlistarskólabarna eru beðnir um fylgjast vel með upplýsingum sem birtast munu um helgina og á mánudaginn, m.a. á heimasíðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar og heimasíðum leik-, grunn- og tónlistarskóla. Þá eru í undirbúningi frekari leiðbeiningar um frístundaheimili, íþróttastarf, íþróttamannvirki og aðrar tómstundir barna.


Rétt er að taka það fram að enn hefur ekkert smit verið staðfest á Norðurlandi.


Mikilvægt er að við höldum ró okkar og fylgjum vel fyrirmælum Embættis landlæknis og Almannavarna. Með því leggjum við okkar af mörkum.


Sveitarstjóri