Uppskeruhátíð tónlistarskólanna Nótan í Hofi 15. mars
Á heimasíðu Tónlistarskóla Skagafjarðar segir að nemendur skólans séu á fullu við æfingar fyrir svæðistónleika Nótunnar sem fram fer í Hofi á laugardaginn en það verða send fjögur atriði frá skólanum í ár.
Nótan er uppskeruhátíð tónlistarskóla landsins og er samstarfsverkefni Félags tónlistarskólakennara, Félags íslenskra hljómlistarmanna og Samtaka tónlistarskólastjóra. Markmið hátíðarinnar er að vera faglega hvetjandi og skemmtilegt innlegg í starfsemi tónlistarskóla fyrir aðstandendur skólanna jafnt innan veggja þeirra sem utan. Innan tónlistarskólanna fer fram öflugt og fjölbreytt starf og er hátíðinni ætlað að beina kastljósinu að því og veita tónlistarnemendum viðurkenningar fyrir afrakstur vinnunnar.
Uppskeruhátíðin er þrískipt og skipulögð þannig að allir geti tekið þátt. Þátttakendur eru frá öllu landinu, á öllum aldri og efnisskráin á að endurspegla ólík viðfangsefni tónlistarnemenda á öllum stigum tónlistarnáms.