Fara í efni

Úrslit í Stóru upplestrarkeppninni í Skagafirði

20.03.2014

Stóra upplestrarkeppnin 2014Stóra upplestrarkeppnin í Skagafirði var haldin í sal bóknámshúss Fjölbrautaskólans í gær en þar öttu kappi tólf nemendur úr grunnskólum Skagafjarðar og lásu sögukafla og tvö ljóð. Nemendurnir stóðu sig með stakri prýði og báru þess glöggt vitni að hafa æft sig af kappi og fengið góða þjálfun hjá kennurum sínum.

Ari Óskar Víkingsson úr Varmahlíðarskóla hreppti fyrsta sæti og Friðrik Snær Björnsson sömuleiðis úr Varmahlíðarskóla var í öðru sæti. Ester María Eiríksdóttir var í þriðja sæti en hún kemur úr Grunnskólanum austan Vatna á Hofsósi.

Í viðurkenningarskyni fengu allir keppendur sérprentaða ljóðabók með ljóðum Þóru Jónsdóttur frá Félagi íslenskra bókaútgefenda og verðlaunahafar að auki gjafabréf frá Eymundsson.