Fara í efni

Úrslit stóru upplestrarkeppninnar

21.03.2018
Sigurvegarar keppninnar, Þórgunnur Þórarinsdóttir, Vignir Nói Sveinsson og Lydía Einarsdóttir.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var haldin í sal bóknámshúss FNV í gær. Þar öttu kappi fjölmargir efnilegir lesarar úr grunnskólum Skagafjarðar og nemendur úr Tónlistarskóla Skagafjarðar léku fyrir gesti. Nemendur lásu texta úr bókinni Strokubörnin á Skuggaskeri eftir Sigrúnu Eldjárn, ljóð eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson og ljóð að eigin vali. Lesarar stóðu sig með stakri prýði og án efa hefur dómnefnd verið mikill vandi á höndum.

Leikar fóru svo að Lydía Einarsdóttir úr Varmahlíðarskóla var í 3. sæti, Þórgunnur Þórarinssdóttir, Árskóla, í öðru og Vignir Nói Sveinsson úr Grunnskólanum austan Vatna hreppti fyrsta sæti.

Höfundar keppninnar í ár eru Sigrún Eldjárn og Ólafur Jóhann Sigurðsson. Keppendur byrjuðu á því að lesa textabrot úr Strokubörn á Skuggaskeri og þar á eftir ljóð eftir Ólaf Jóhann. Að lokum voru lesin ljóð sem nemendur völdu sjálfir. 

 Í viðurkenningarskyni fengu allir þátttakendur sérprentaða ljóðabók eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson frá Félagi íslenskra bókaútgefenda. Verðlaunahafar fengu að auki peningagjöf.

 Upplestrarkeppnin er ekki keppni í venjulegum skilningi heldur eins konar uppskeruhátíð allrar þeirrar vinnu sem nemendur hafa lagt á sig í undirbúningi fyrir daginn. Undirbúningur hófst á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember sl. Keppnin er haldin að frumkvæði áhugafólks um íslenskt mál í samvinnu við skólaskrifstofur, skóla og kennara. Þátttaka í upplestrarkeppninni stendur öllum 7. bekkjum landsins til boða.

Við óskum öllum þátttakendum innilega til hamingju með góðan árangur.