Fara í efni

Útgáfuhátíð Skagfirðingabókar og fleiri viðburðir um helgina

03.11.2016
Lestur Sturlungu í Áshúsi. F.v. Björn Björnsson, Hjalti Pálsson og Bjarni Maronsson.

Laugardaginn 5. nóvember næstkomandi fagnar Sögufélag Skagfirðinga útgáfu nýrrar Skagfirðingabókar en í ár eru 50 ár síðan hún kom út í fyrsta skipti. Samkoma verður af því tilefni á Mælifelli á Sauðárkróki kl 14-16. Á þessum 50 árum hafa birst rúmlega 380 greinar af skagfirsku efni á um það bil 7.400 blaðsíðum. 

Í nýjustu bókinni sem er númer 37 í röðinni eru 10 greinar um fjölbreytt efni. Á útgáfuhátíðinni munu Hjalti Pálsson, Sölvi Sveinsson og Einar Kristinn Guðfinnssons flytja erindi og lesa úr greinum og er áhugafólk hvatt til að mæta.

Um helgina eru síðustu sýningar Leikfélags Sauðárkróks í Bifröst á Dýrunum í Hálsaskógi sem góður rómur hefur verið gerður að og því síðustu forvöð fyrir þá sem ekki hafa séð sýninguna að mæta. Sýning er á föstudaginn kl 18 og tvær sýningar á laugardag og sunnudag kl 14 og 17.

Í íþróttahúsinu á Sauðárkróki fara fram Metabolic-leikar þar sem iðkendur og þjálfarar Metabolic víðsvegar af að landinu keppa og hefst keppnin kl 11:30 á laugardaginn. Þreksport á Sauðárkróki verður með fimm lið í keppninni og einnig keppendur í para- og einstaklingskeppnum. Fólk er hvatt til að kíkja við og styðja við keppendur en frítt er inn.

Í Menningarhúsinu Miðgarði verður Karlakórinn Heimir ásamt Karlakórnum Hreimi úr Þingeyjasýslum og kallast dagskráin Stálin stinn. Ætla kórarnir að leiða saman hesta sína og skera úr því endanlega hverjir séu montnari Skagfirðingar eða Þingeyingar. Dagskráin hefst kl 20:30 á laugardagskvöldinu.

Í Ljósheimum verður tónlistarmaðurinn góðkunni KK eða Kristján Kristjánsson sem slær á létta strengi og segir sögur á milli þess sem hann flytur lögin sín. Dagskráin hefst kl 21:30.

Á sunnudagsmorgninum kl 10:30 hefst síðan lestur úr Sturlungu í Áskaffi í Glaumbæ og verður lesið alla sunnudaga í nóvember. Það er félagið á Sturlungaslóð sem stendur fyrir lestrinum og eru allir velkomnir og ekki síður þeir sem ekki hafa lesið ritið.