Úthlutun styrks úr Sprotasjóði 2020
Fræðsluþjónustu Skagafjarðar hefur verið úthlutað 1.350.000 krónum í styrk úr Sprotasjóði skólaárið 2020-2021 fyrir verkefnið Lærdómssamfélag í skólum í Skagafirði. Samstarfsaðilar í verkefninu auk Fræðsluþjónustunnar eru allir leik- og grunnskólar í Skagafirði, Tónlistarskóli Skagafjarðar, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra auk Frístundar. Sprotasjóður er sameiginlegur sjóður fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og er hlutverk sjóðsins að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi. Alls hlutu 26 verkefni styrk úr Sprotasjóði fyrir skólaárið 2020-2021 en til úthlutunar voru 56 milljónir að þessu sinni.
Markmið verkefnisins er að skapa virkt lærdómssamfélag í skólasamfélaginu í Skagafirði. Á síðastliðnu skólaári og til loka ársins 2019 var unnið að gerð nýrrar Menntastefnu Skagafjarðar sem nýverið var gefin út. Menntastefnan er metnaðarfull og beinir sjónum að samtakamætti alls samfélagsins, þegar kemur að skólastarfi, þar sem allir bera ábyrgð. Við mótun hennar var hugmyndafræði um heildtæka nálgun í skólastarfi og hugmyndir um lærdómssamfélagið leiðarljósið. Með Menntastefnu Skagafjarðar fylgir aðgerðaáætlun í fimm lykilþáttum. Markmið þessa verkefnis er að fylgja skilgreindum þáttum aðgerðaáætlunar menntastefnunnar eftir í samvinnu og samstarfi allra skólastiga, skólagerða og Frístundar. Gert er ráð fyrir að innleiðingarferlið hefjist í upphafi næsta skólaárs 2020-2021. Sprotasjóðsstyrkurinn er kærkominn og mun koma sér vel í innleiðingarferli Menntastefnu Skagafjarðar.