Fara í efni

Væntanleg ný samþykkt um búfjárhald í þéttbýli

28.10.2015
Íslensk hænsni - mynd landnamshaenan.is

Ný samþykkt um búfjárhald í þéttbýli í Sveitarfélaginu Skagafirði var lögð fram á sveitarstjórnarfundi þann 14. október síðastliðinn og samþykkt samhljóða. Samþykktin bíður nú staðfestingar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Samþykkt þessi er sett til að tryggja skipulag, stjórn og eftirlit með búfjárhaldi í þéttbýli sveitarfélagsins og koma þannig í veg fyrir ágang á lóðir íbúa og einnig til verndar gróðri. Þeir þéttbýlisstaðir sem samþykkt þessi tekur til eru Sauðárkrókur, Hofsós, Varmahlíð og Steinsstaðir.

Í samþykktinni segir m.a.: Búfjárhald er almennt óheimilt í þéttbýli í Sveitarfélaginu Skagafirði. Búfjárhald er þó heimilt í þéttbýli í sérstaklega skipulögðum hverfum eða að fengnu sérstöku leyfi landbúnaðarnefndar. Í þessari samþykkt er með búfjárhaldi átt við nautgripa-, hrossa-, svína-, sauðfjár-, kanínu-, geita-, loðdýra- og alifuglahald, sbr. lög nr. 38/2013 um búfjárhald. Heimilt er að halda allt að 10 hænsni á hverri lóð, en hanar eru með öllu bannaðir í þéttbýli í sveitarfélaginu. Þeir sem eiga eða hafa í umsjón sinni búfé skulu hafa sótt um búfjárleyfi fyrir 1. apríl 2016. Umsóknareyðublað mun verða sett inn á heimasíðu sveitarfélagsins þegar samþykktin hefur verið staðfest.

Samþykktina má lesa í heild sinni í fundargerð sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar frá 14. október 2015 undir liði 7.