Fara í efni

Vefsíða aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands auglýsir eftir verkefnum

22.09.2017
Mynd fullveldi1918.is

Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands verður fagnað á næsta ári með fjölbreyttri dagskrá um land allt. Opnuð hefur verið vefsíða afmælisársins á slóðinni www.fullveldi1918.is. Vefsíðan verður upplýsingasíða þar sem m.a. verður hægt að fylgjast með dagskrá afmælisársins og skrá verkefni á dagskrá. Á síðunni verður hægt að finna fróðleik um árið 1918 og fullveldishugtakið sem og námsefni fyrir skóla.

Kallað er eftir frumkvæði og virkri þátttöku landsmanna við mótun dagskrár afmælisársins og lögð er áhersla á að ná til sem flestra. Opnað hefur verið fyrir tillögur að verkefnum á dagskrá afmælisársins og skal þeim skilað rafrænt í gegnum vefsíðuna www.fullveldi1918.is fyrir kl 16 þann 22. október næstkomandi.

Lögð er áhersla á fjölbreytt og vönduð verkefni með nýstárlegri nálgun sem má kynna sér á heimasíðu verkefnisins og skulu þau fara fram á afmælisárinu 2018. Styrkir geta numið allt að 3 milljónum króna en þó aldrei meira en 50% af heildarkostnaði við verkefnið.

Alþingi kaus nefnd með fulltrúum allra þingflokka haustið 2016 til að undirbúa hátíðahöldin m.a. í samvinnu við Árnastofnun.  Nánari upplýsingar veita Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir framkvæmdastjóri ragnheiðurjona@fullveldi1918.is  (862 277) og Einar K. Guðfinnsson ekg@ekg.is (892 7628)

Við hvetjum íbúa sveitarfélagsins til að huga að áhugaverðum verkefnum og senda inn tillögur.