Vegna fréttar um hækkun leikskólagjalda
Fram hefur komið í fréttum að Sveitarfélagið Skagafjörður sé í hópi þeirra sveitarfélaga sem hækkar leikskólagjöld hvað mest, eða um 8%. Ástæður þessarar hækkunar eru tvíþættar. Annars vegar sú að leikskólagjöld höfðu ekki hækkað í tvö ár, eða frá því í janúar 2013. Engin hækkun varð á gjöldum á árinu 2014 eins og hjá flestum öðrum sveitarfélögum landsins. Við ákvörðun um hækkun gjalda var einnig litið til þeirra launahækkana sem orðið hafa á tímabilinu, en dæmi um launahækkanir á þessu tímabili eru allt frá rúmlega 9% og upp í um 20%.
Eftir sem áður er Sveitarfélagið Skagafjörður í hópi þeirra sveitarfélaga þar sem leikskólagjöld eru lægst. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur lagt sig fram um að veita góða leikskólaþjónustu og flest börn sem þess óska fá leikskóladvöl um eins árs aldur.
Þess má einnig geta að þegar skoðaður er heildarkostnaður fyrir skóladagvistun með hressingu og hádegismat í skólum landsins, er Sveitarfélagið Skagafjörður með lægsta verðið, kr. 21.777 á mánuði, en hæsta verðið sem greitt er fyrir slíka þjónustu er kr. 33.964 á mánuði.
Þetta kemur fram á vef ASÍ.