Fara í efni

Vegna verkfalla í leikskólanum Ársölum

31.10.2024

Verkföll félagsmanna aðildarfélaga Kennarasambands Íslands hófust á þriðjudag í níu skólum víðsvegar um landið. Þar á meðal er leikskólinn Ársalir á Sauðárkróki.

Á fundi byggðarráðs í gær var fjallað um starfsemi leikskólans Ársala á meðan á verkfalli leikskólakennara stendur. Í bókun byggðarráðs kemur fram að sveitarstjórn Skagafjarðar staðfesti ákvörðun byggðarráðs um að fela Sambandi íslenskra sveitarfélaga að fara með samningsumboð þess gagnvart viðsemjendum sínum, á fundi sínum þann 14. desember 2022. Síðan þá hafa samskipti við viðsemjendur, m.a. KÍ vegna kjaraviðræðna sem nú eru í gangi, alfarið verið á hendi Sambandsins og án frekari aðkomu sveitarfélagsins.

Eftir að sveitarstjórn tók ákvörðun um að fela Sambandi íslenskra sveitarfélaga samningsumboðið hafa starfsmenn sveitarfélagsins eingöngu fylgt leiðbeiningum Sambandsins um hvernig taka eigi á málum komi til verkfalla, og þá hvað væri leyfilegt að gera og hvað ekki, með hagsmuni allra að leiðarljósi og mikilvægi þess að ekki sé brotið á verkfallsrétti. Sú leið sem var boðuð í tölvupósti til foreldra um verulega skerta þjónustu mánudaginn 28. október var í fullu samræmi við leiðbeiningar Sambands íslenskra sveitarfélaga, en þá var markmiðið að halda úti lágmarks þjónustu með því starfsfólki sem ekki var í verkfalli, en samt að uppfylla allar reglur og kröfur miðað við það sem gert hefur verið í sambærilegum verkfallsaðgerðum.

Byggðarráð harmar því mjög þær aðstæður sem upp eru komnar og þann ágreining sem er uppi um túlkun á hvað sé leyfilegt og hvað ekki í aðstæðum sem þessum. Það er einlæg von byggðaráðs að samningar náist sem allra fyrst þannig að skaði samfélagsins í heild verði sem minnstur. Það er hagur okkar allra.

Leiðbeiningar sambandsins til sveitarfélaga má finna hér: https://shorturl.at/l8cRO