Fara í efni

Vel heppnuð uppskeruhátíð tónlistarskólanna

20.03.2017
Kvartettinn Kúrekarnir úr Tónlistarskóla Skagafjarðar

Nótan er uppskeruhátíð tónlistarskólanna og var hún haldin hátíðleg um land allt um síðustu helgi með svæðistónleikum.  Skagafjörður tilheyrir Norður og Austurlandi og voru svæðistónleikarnir á Egilsstöðum í ár.

Tólf skólar áttu fulltrúa á tónleikunum og tóku tæplega níutíu ungir flytjendur þátt ásamt meðleikurum.  Alls voru flutt 35 atriði, 18 í grunnnámsflokki og 17 í mið- framhalds - og opnum flokki.  Sjö atriði voru valin áfram til að taka þátt í lokatónleikum Nótunnar í Hörpu 2.apríl.

 Þátttakendur frá Tónlistarskóla Skagafjarðar komu frá strengjadeildinni og voru flutt tvö atriði, eitt samspilsatriði og eitt einleiksatriði.

Kúrekarnir eru kvartett sem ungar og efnilegar strengjastúlkur skipa en það eru þær Auður Ásta Þorsteinsdóttir fiðla, Ragnhildur Sigurlaug Guttormsdóttir fiðla, Helga Þóra Siggeirsdóttir fiðla og Rebekka Helena Róbertsdóttir selló.  Þær léku þjóðlagið Old McDonald í útsetningnu Helenar Butterworth og vöktu þær mikla athygli fyrir góða spilamennsku og prúða framkomu.  

Ragnhildur Sigurlaug lék einnig Humoresku eftir Dvorak á fiðlu og var það einleiksatriði sem var valið til að fara á lokatónleikana í Hörpu 2. apríl.

Allir þátttakendur hlutu viðurkenningu fyrir þátttökuna og einnig hlutu valverkefni fallegan verðlaunagrip.

Þessar ungu stúlkur stóðu sig allar með prýði á tónleikunum og undirleikari hjá þeim var Páll Barna Szabó kennari í tónlistarskólanum á Tröllaskaga. 

Keppendur á Egilsstöðum

 Ragnhildur Sigurlaug Guttormsdóttir