Fara í efni

Velkomin á landsmótið!

12.07.2018

Landsmótið hófst á Sauðárkróki í dag og Sveitarfélagið Skagafjörður býður Landsmótsgesti hjartanlega velkomna.

Landsmótið er fjögurra daga íþróttaveisla þar sem íþróttir og hreyfing verða í aðalhlutverki á daginn. Á kvöldin verður skemmtun og samvera í góðum félagsskap allsráðandi.

Allir 18 ára og eldri geta skráð sig, en að sjálfsögðu verður margt í boði fyrir mótsgesti yngri en 18 ára. Þátttakendur Landsmótsins geta keppt í eða prófað fjölda íþróttagreina í bland við götu- og tónlistarveislu.

Þjónustumiðstöð Landsmótsins verður í Árskóla við Skagfirðingabraut, en þar er afhending gagna og hægt að nálgast allar upplýsingar.

Í dag, fimmtudag, fer fram þriggja tinda ganga, en gengið verður á Mælifell, Tindastól og Molduxa. Þá fer einnig fram pútt á Hlíðarendavelli, en frítt er í púttið og skráning ekki nauðsynleg.

Á morgun, föstudag, hefst svo dagskrá á fullu og lýkur um miðjan dag á Sunnudag. Dagskrá Landsmótsins er hér fyrir neðan, en henni er skipt niður í fjóra flokka sem hver hefur sinn lit. Allar greinar sem keppt er í eru merktar með gulum lit. Viðburðir í flokknum „láttu vaða“ eru merktir með rauðu. Þar er hægt að prófa fjölda greina, fá kennslu og kynningu. Mótsgestir geta nýtt sér ýmis svæði og velli fyrir fjölbreytta hreyfingu og leiki. Þau eru merkt í grænum lit. Í bláa flokknum eru allskonar viðburðir og afþreying. Flestir viðurðir eru ókeypis. Þátttakendur fá afslátt á þá viðburði sem greiða þarf fyrir og haldnir eru í tengslum við landsmótið.

Götupartí og tónlistarveisla verður á föstudagskvöldið og hefts kl. 19 í Aðalgötunni. Þar fer fram setning Landsmótsins, skemmtidagskrá og tónlistarveisla. Kl. 21 mæta Auddi og Steindi, hjómsveitin Albatross og Sverrir Bergmann ásamt gestum og skemmta fjöldanum.

Á laugardagskvöldið verður matarveisla, skemmtun og dans í íþróttahúsinu á Sauðárkróki frá kl. 19:30-23:00. Þar verður boðið upp á veisluhlaðborð úr Matarkistu Skagafjarðar. Veislustjórar verða Gunnar Sandholt og María Björk Ingvadóttir og hljómsveit Geirmundar Valtýssonar leikur fyrir dansi. Miðasala er á www.landsmotid.is, en miðaverð er kr. 5.900.- en kr. 4.900.- fyrir þátttakendur á Landsmótinu. Aldurstakmark 18 ár.

Ball ársins hefst svo í íþróttahúsinu á miðnætti sama kvöld, en þá stígur Páll Óskar á sviðið. Miðasala er á www.landsmotid.is, en miðaverð er kr. 3.900.- en kr. 3.000.- fyrir þátttakendur á Landsmótinu. Aldurstakmark 18 ár.

Frábærir súpufyrirlestrar verða í Húsi frítímans í hádeginu föstudag, laugardag og sunnudag kl. 12:15 – 12:45. Einnig verður boðið upp á skemmtilega ráðstefnu seinnipart föstudags kl. 16:00 – 18:00 í Húsi frítímans. Allir velkomnir og súpa í boði.

Landsmótið er frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Góða skemmtun!

 

 Hér má nálgast dagskrá landsmótsins: https://www.landsmotid.is/media/2255/timasett-dagskra_landsmotid.pdf