Fara í efni

Viðaukasamningur um styrk til stofnunar þekkingargarða á Norðurlandi vestra undirritaður

27.03.2025
Sveinbjörg Rut Pétursdóttir framkvæmdastjóri SSNV og Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Skagafjarðar við undirritun samningsins.

Undirritaður hefur verið viðaukasamningur um styrk til stofnunar þekkingargarða á Norðurlandi vestra. Samningurinn er gerður með vísan í aðgerð C.1 Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036 og byggir á styrkumsókn sem landshlutasamtök Norðurlands vestra lögðu fram fyrir hönd Skagafjarðar.

Verkefnið miðar að því að koma á fót þekkingargörðum með höfuðstöðvar á Sauðárkróki, þar sem atvinnulíf, Háskólasamstæða Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra og sveitarfélög vinna saman að eflingu sjálfbærrar matvælaframleiðslu sem byggir á styrkleikum svæðisins.

Með stofnun þekkingargarðanna er stefnt að því að efla samkeppnishæfni atvinnulífsins, styðja við nýsköpun og menntun, skapa störf og ýta undir samfélagslega þróun á svæðinu. Gert er ráð fyrir að fjölbreyttur hópur fyrirtækja innan garðanna styrki matvælaframleiðslu og nýsköpun, og laði að menntað fólk með þekkingu og reynslu.

Heildarupphæð samningsins nemur 8 milljónum króna.

Þetta er mikilvægt skref í átt að því að styrkja innviði fyrir þekkingardrifna atvinnuþróun og sjálfbæra framtíð á Norðurlandi vestra.