Fara í efni

Viðburðarík helgi framundan

04.12.2015

Nú er desember genginn í garð og fram undan önnur helgin í aðventu. Það verður mikið um að vera í Skagafirði um helgina og einnig sunnan heiða tengt héraðinu. Jólamarkaður verður í Húsi frítímans báða helgardagana og einnig heimboð í Gallerí Rúnalist á Stórhóli í gamla Lýtingsstaðahreppi.

Á laugardeginum verður opið hjá maddömunum í Maddömukoti, kynningar, tilboð og jólakósý hjá ýmsum fyrirtækjum s.s. Sauðárkróksbakaríi, Lottu, Wanitu, Tánni og Strötu og fleiri stöðum. Í Varmahlíð er opið í Alþýðulist og opin vinnustofa hjá Skrautmeni í Áshildarholti. Aðventuhátíð er í Barðskirkju kl 14 og jólahlaðborð á ýmsum stöðum.

Annan sunnudag í aðventu eru aðventuhátíðir í Hofsósskirkju og á Löngumýri kl. 14:00, jólabrunch á Hótel Varmahlíð og kynningar á jólakaffi í bakaríinu og í KS Varmahlíð. Útgáfutónleikar Geirmundar Valtýssonar eru í Menningarhúsinu Miðgarði kl 18:00 og 20:30 og er Diddú gestasöngvari.

Á sunnudagskvöldinu er þátturinn, Öldin hennar, á RÚV og að þessu sinni verður fjallað um kvenfélög. Í þættinum verður m.a. fjallað um kvenfélag Rípurhrepps en það er elsta kvenfélag landsins stofnað að Ási í Hegranesi 1869.

Ekki má gleyma kvöldinu í kvöld en þá eru tveir þættir í beinni útsendingu þar sem Skagfirðingar eru að keppa. Í Útsvari á RÚV keppir lið Skagafjarðar við lið Fljótsdalshéraðs og byrjar útsendingin kl 20:40. Á Skjá einum keppa þeir Ellert Jóhannsson og Sigvaldi Helgi Gunnarsson í The Voice Ísland og hefst sú útsending kl 20. Þar sem útsending þáttanna skarast er um að gera að nýta sér tæknina og nota t.d. rúv+.

Það er því óhætt að segja að nóg sé um að vera þessa helgina og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi en dagskrá vikunnar er hér að neðan.

Jóladagskrá vikunnar