Viðburðarík helgi framundan
Nú er desember genginn í garð og fram undan önnur helgin í aðventu. Það verður mikið um að vera í Skagafirði um helgina og einnig sunnan heiða tengt héraðinu. Jólamarkaður verður í Húsi frítímans báða helgardagana og einnig heimboð í Gallerí Rúnalist á Stórhóli í gamla Lýtingsstaðahreppi.
Á laugardeginum verður opið hjá maddömunum í Maddömukoti, kynningar, tilboð og jólakósý hjá ýmsum fyrirtækjum s.s. Sauðárkróksbakaríi, Lottu, Wanitu, Tánni og Strötu og fleiri stöðum. Í Varmahlíð er opið í Alþýðulist og opin vinnustofa hjá Skrautmeni í Áshildarholti. Aðventuhátíð er í Barðskirkju kl 14 og jólahlaðborð á ýmsum stöðum.
Annan sunnudag í aðventu eru aðventuhátíðir í Hofsósskirkju og á Löngumýri kl. 14:00, jólabrunch á Hótel Varmahlíð og kynningar á jólakaffi í bakaríinu og í KS Varmahlíð. Útgáfutónleikar Geirmundar Valtýssonar eru í Menningarhúsinu Miðgarði kl 18:00 og 20:30 og er Diddú gestasöngvari.
Á sunnudagskvöldinu er þátturinn, Öldin hennar, á RÚV og að þessu sinni verður fjallað um kvenfélög. Í þættinum verður m.a. fjallað um kvenfélag Rípurhrepps en það er elsta kvenfélag landsins stofnað að Ási í Hegranesi 1869.
Ekki má gleyma kvöldinu í kvöld en þá eru tveir þættir í beinni útsendingu þar sem Skagfirðingar eru að keppa. Í Útsvari á RÚV keppir lið Skagafjarðar við lið Fljótsdalshéraðs og byrjar útsendingin kl 20:40. Á Skjá einum keppa þeir Ellert Jóhannsson og Sigvaldi Helgi Gunnarsson í The Voice Ísland og hefst sú útsending kl 20. Þar sem útsending þáttanna skarast er um að gera að nýta sér tæknina og nota t.d. rúv+.
Það er því óhætt að segja að nóg sé um að vera þessa helgina og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi en dagskrá vikunnar er hér að neðan.