Viðburðir í skólum Skagafjarðar í tilefni dags íslenskrar tungu
Á laugardaginn 16. nóvember er dagur íslenskrar tungu en sá dagur er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar skálds og náttúrufræðings sem fæddist á Hrauni í Öxnadal 1807. Ýmislegt verður gert í skólum Skagafjarðar í tilefni dagsins.
Nemendur 7. bekkjar í Varmahlíðarskóla fara í leikskólann Birkilund á fimmtudeginum og lesa fyrir börnin og einnig munu nemendur 7. bekkjar Grunnskólans austan Vatna á Hofsósi lesa fyrir leikskólabörnin á Tröllaborg. Á Sauðárkróki lesa 7. bekkingar fyrir börnin í Ársölum þriðjudaginn 19. nóv. Lestur nemendanna er liður í Stóru upplestrarkeppninni sem fer fram árlega í 7. bekk.
Í Varmahlíðarskóla er opinber lopapeysudagur á föstudeginum og samkoma kl 11 þar sem nemendur í 2., 4., 6., 8. og 10. bekk verða með atriði og síðan sungið saman. Á Hólum verður sameiginleg nóvemberskemmtun leik- og grunnskóla og skólahópurinn á Hofsósi mun einnig taka þátt í skemmtuninni sem hefst kl 16:30 á föstudeginum. Í boði eru upplestur, leikrit og söngur og eru allir velkomnir að mæta. Foreldrafélagið hefur veg og vanda af veitingum að dagskrá lokinni. Í Sólgarðaskóla í Fljótum verður einnig sameiginleg skemmtun beggja skólastiga mánudaginn 18. nóv. Í leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki hefur verið bókavika þessa vikuna þar sem börnin mega hafa með sér bók í skólann.
Á laugardaginn verður skemmtun í Löngumýri með Kammerkór Skagafjarðar og nemendum 7. bekkjar Varmahlíðarskóla þar sem krakkarnir fjalla um skáldið Þorstein Erlingsson og kórinn syngur nokkur lög við ljóð hans. Dagskráin hefst kl 16, er ókeypis og öllum opin og boðið upp á kaffi, konfekt og kleinur að henni lokinni.