Viðurkenning fyrir gæðaverkefni í menntamálum
Gæðaviðurkenningar Erasmus+ menntaáætlunar Evrópusambandsins voru veittar við hátíðlega athöfn í Ásmundarsafni í gær, en Landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi úthlutar árlega tæplega 800 milljónum úr áætluninni til verkefna í menntun. Eitt þessara verkefna er unnið í Skagafirði og heitir, Að byggja brú milli leik- og grunnskóla.
Tíu verkefni hlutu viðurkenningu að þessu sinni og á vef Rannís segir að þau eigi það sammerkt að hafa sýnt fram á nýsköpun og nýbreytni í menntun, stuðlað að þátttöku fjölbreyttra hagsmunahópa í alþjóðasamstarfi og haft áhrif á skólastarf einstakra stofnana sem og víðtækari áhrif í skólasamfélaginu.
Sveitarfélagið Skagafjörður fær viðurkenningu fyrir að stýra velheppnuðu svæðasamstarfi með áherslu á aðferðir til að tryggja að skilin á milli tveggja skólastiga verði sem minnst, leik- og grunnskóla. Niðurstöður verkefnisins nýtast áfram innan skóla sveitarfélagsins og hafa þær m.a. verið birtar í Nordic Educational Magazine í samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, veitti viðurkenningarnar sem eru í formi myndverka sem hönnuð voru af 15 nemendum á öðru ári í teiknideild í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Fulltrúar verkefnisins frá Skagafirði þær Herdís Sæmundardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs, Selma Barðdal uppeldis - og sálfræðiráðgjafi og Helga Harðardóttir kennsluráðgjafi voru á staðnum og með þeim var fulltrúi frá Háskóla Íslands, Anna Kristín Sigurðardóttir, sem er samstarfsaðili í verkefninu. Herdís tók við vikurkenningunni úr hendi mennta- og menningarmálaráðherra.
Nánari upplýsingar eru á vef Rannís.